149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur fyrirspurnina. Já, ég skal leggja mig fram um að standa með Hafró og tel raunar að sú umræða sem átti sér stað í fyrra hafi verið byggð á ákveðnum misskilningi á því hvað verið var að gera. Hún var á margan hátt óþörf vegna þess að fjármunir til starfseminnar eru ekki skertir milli ára. Það er rétt ábending hjá hv. þingmanni að benda á að við þurfum að standa betur að því að slík umræða komi ekki upp.

Varðandi það sem hér er nefnt um fiskeldið og hvað við getum gert til að stuðla meira að þeim þáttum sem hv. þingmaður nefnir, geldfiski eða lokuðum sjókvíum, þá er í áætluninni um gjaldtökufrumvarpið gert ráð fyrir að hvort tveggja, eldi á geldfiski og eldi á laxfiski í lokuðum sjókvíum, verði án gjalda. Það verður sem sagt gjaldfrítt, sem er mikill hvati til þeirrar starfsemi meðan hún er í uppbyggingarfasa.

Ég sá það í Morgunblaðinu í morgun, frekar en í gærmorgun, að fiskeldi fyrir austan er komið af stað með eldi á geldlaxi. Þannig að fyrirtækin eru byrjuð að þreifa sig áfram í þessum efnum og það er vel. Ég vænti þess að gjaldtökufrumvarpið, að því gefnu að það gangi fram í því formi sem fyrir því var mælt, muni frekar ýta undir og styrkja fyrirtækin í þeirri þróunarvinnu sem hvort tveggja, eldi á geldfiski og lokuðum sjókvíum, er.