149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Með síðustu fjármálaáætlun 2019–2023 var samþykkt veruleg innspýting til verkefna á málefnasviði 17, umhverfismála. Þetta var gert sér í lagi til þess að mæta áskorunum í loftslagsmálum og verkefnum til að vernda náttúrufarsleg verðmæti og stuðla að sjálfbærri nýtingu. Í þeirri fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar helst sú aukning óbreytt hvað þessa liði varðar. Árleg heildarframlög til málefnasviðsins eru samkvæmt fjárlögum 2019 um 19 milljarðar kr. og gert er ráð fyrir að þau verði 22,4 milljarðar á árinu 2024. Ef horft er til ársins 2018 og þeirrar hækkunar sem þá varð til málefnasviðsins nemur þessi hækkun 28,8%.

Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í loftslagsmálum dyljast engum og brýnt er að mæta þeim. Ríkisstjórnin hefur sett loftslagsmálin á oddinn og á árunum 2020–2024 er ráðgert að verja um 8,3 milljörðum kr. aukalega til loftslagsmála. Þannig er á árinu 2024 varið um 2 milljörðum kr. meira til loftslagsmála miðað við árið 2018.

Með fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem kynnt var sl. haust er áhersla lögð á tvennt, stóraukna kolefnisbindingu og orkuskipti í samgöngum. Auk þess er ráðgert að verja auknum fjármunum til nýsköpunar, fræðslu, rannsókna og margvíslegra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við höfðum tekið loftslagsmálin föstum tökum og afar mikil vinna á sér stað varðandi þau þessa dagana og mánuðina — og verður áfram.

Hvað varðar loftslagsmál hefur ráðuneytið m.a. sett sér tvö eftirfarandi markmið:

1. Að árið 2024 sé unnið að öllum aðgerðum í fyrirliggjandi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem ekki verður þá þegar lokið. Aðgerðaáætlunin verður reglulega endurskoðuð og önnur útgáfa hennar lítur dagsins ljós síðar á þessu ári.

2. Að auka árlegt umfang uppgræðslu, endurheimtar vistkerfa og nýskógræktar í því augnamiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar og auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri í þágu markmiða Parísarsamningsins og markmiðs ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi 2040.

En þá að öðrum stórum málaflokki í umhverfismálunum, náttúruvernd. Meginmarkmiðið þar er að tryggja verndun náttúrufarslegra verðmæta og sjálfbæra nýtingu lands til framtíðar, m.a. með uppbyggingu innviða og landvörslu, sem byggi á vísindalegri þekkingu, fræðslu, upplýsingamiðlun og samráði við hagsmunaaðila. Með innspýtingu þeirra fjármuna sem samþykktir voru í fjármálaáætlun síðasta árs verður 8,3 milljörðum kr. varið til þessara verkefna á árunum 2020–2024. Meðal verkefna þessu tengt er að koma miðhálendisþjóðgarði á fót. Nefnd sem vinnur nú að undirbúningi hans mun skila tillögum sínum til mín í haust.

Hvað varðar náttúruvernd hefur ráðuneytið m.a. sett sér tvö eftirfarandi markmið:

1. Að álag áfangastaða vegna ágangs ferðamanna á náttúruverndarsvæðum sé innan þolmarka, m.a. með uppbyggingu viðeigandi innviða og landvörslu til að stýra ágangi ferðafólks og viðhalda verndargildi náttúruverndarsvæða. Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er það tól sem fært hefur vinnubrögðin til betri vegar sem gott er fyrir alla; ferðaþjónustuna, ríkissjóð og náttúruna sjálfa sem hagnast mest af öllum.

Ég vil meina að vatnaskil hafi orðið í þessum málum á Íslandi.

2. Annað markmið hvað varðar náttúruverndina lýtur að þeim áformum stjórnvalda að friðlýsa um 50 náttúruverndarsvæði, smá sem stór, á næstu fimm árum. Þar er meðtalin stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands eins og kveðið er á um í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég hef látið eftir mér hafa að stofnun miðhálendisþjóðgarðs verði stærsta einstaka framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum hingað til.

En það eru fleiri áskoranir sem tekist verður á við. Framtíðarsýn um hringrásarhagkerfi og aðgerðir þar að lútandi, með ábyrga framleiðslu og neyslu, bætta endurnýtingu og endurvinnslu sem mun draga verulega úr myndun úrgangs frá því sem nú er. Áætlað er að verja um 100 millj. kr. árlega til þessara mála á tímabili fjármálaáætlunar og er þar um nýtt fjármagn að ræða.

Í þessu sambandi hefur ráðuneytið sett sér eftirfarandi markmið:

Að auka endurvinnslu heimilisúrgangs, úr 26% miðað við árið 2017 í 50% fyrir árslok 2024 í samræmi við reglugerð er byggir á tilskipun Evrópusambandsins. Í þessum málum er tafarlausra aðgerða þörf.

Í heild sinni tel ég að hér sé um brýna forgangsröðun á fjármunum til umhverfismála að ræða, enda til mikils að vinna. Loftslagsmálin eru mál málanna þessa dagana og brýnna aðgerða er þörf. Þá felast tækifæri til stórsóknar í uppbyggingu innviða, aukinni landvörslu og stofnun miðhálendisþjóðgarðs og fleiri friðlýstra svæða sem hafa það að markmiði að auka vernd og þar með grundvöll nýtingar á náttúrunni, ekki síst fyrir ferðaþjónustu og störf úti um allt land. Ég hlakka til umræðunnar.