149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ef sá sem hér stendur fengi að ráða væri margt allt öðruvísi. Ég hef ekki tíma í einnar mínútu andsvari til að fara yfir það.

En það sem ég er að segja er einfaldlega þetta: Þegar við erum búnir að ákveða það hvað við setjum til málaflokksins og við gerum það í fjárlögum þá nálgumst við það út frá markmiðum, það er það sem við leggjum upp með. Hverju viljum við ná fram með utanríkisþjónustunni? Hv. þingmaður bendir réttilega á hlut eins og hlýnun jarðar og þróunaraðstoðina. Það fer nú saman. Við erum t.d. með skóla Sameinuðu þjóðanna sem við erum með á Íslandi, sem er svolítið kjarninn í þróunarsamvinnunni. Þar erum við með Jarðhitaskólann, sem skiptir gríðarlega miklu máli þegar við glímum við loftslagsbreytingar, sömuleiðis Landgræðsluskólann. Maður getur í rauninni sagt að í því efni skipti Sjávarútvegsskólinn og jafnvel Jafnréttisskólinn líka máli að einhverjum hluta. Við erum með, ég vil nú helst ekki sletta, fókusinn á því og munum fylgja því þétt eftir eins og hefur verið gert áður. En við þurfum líka að ræða það hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. (Forseti hringir.) Það er verkefnið þegar við höfum ákveðið fjármuni í málaflokkinn.