149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

Jafnréttissjóður Íslands.

570. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá hv. allsherjar- og menntamálanefnd um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands. Með þingsályktunartillögunni er gerð tillaga um breytingar á Jafnréttissjóði Íslands sem hafa það að markmiði að efla stjórnsýslu og starfsemi hans. Tillögurnar fela í sér þær breytingar að fækkað verði í stjórn sjóðsins, að forsætisráðherra skipi stjórn sjóðsins til ársloka 2020, þrjá aðalmenn og þrjá til vara, og að stjórnsýsla sjóðsins, þar með talin varsla hans og dagleg umsýsla, verði hjá Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands.

Þá er lagt til að við úthlutun á árunum 2019 og 2020 verði kallað eftir umsóknum til verkefna og rannsókna sem stuðla að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi. Einnig er lagt til að sjóðurinn styrki verkefni sem stuðli að fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis sem og verkefna sem stuðla að aukinni þekkingu á vörnum og samræmdum viðbrögðum við ofbeldi í nánum samböndum.

Virðulegur forseti. Þessi þingsályktun er ákveðið framhald af annarri þingsályktun, að sjálfsögðu um Jafnréttissjóð Íslands, sem var samþykkt árið 2015 í tilefni af 100 ára kosningarrétti íslenskra kvenna sem þá var fagnað. Þá voru sjóðnum falin ákveðin verkefni og frekar ítarleg. Í ljósi #metoo og í ljósi þeirrar þróunar og grósku sem hefur verið í þessum málum er lagt til að bæta aðeins við það mikla starf sem sjóðurinn gegnir nú þegar.

Áður en ég sný mér að frekari efnisatriðum nefndarálitsins ætla ég að leyfa mér að fara aðeins yfir mikilvægi þessa sjóðs. Mér er mikil ánægja að segja frá því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd komst að sameiginlegri niðurstöðu um mikilvægi þess að halda þessum sjóði gangandi. Þegar sjóðurinn var settur á fót árið 2015 var það til fimm ára, eða allt til 2020, með framlögum á fjárlögum upp á 100 millj. kr. ár hvert.

Við meðferð þessa máls fyrir nefndinni kom fram mikil ánægja með störf sjóðsins. Sömuleiðis kom fram mjög skýrt ákall um að halda starfsemi hans gangandi. Mér finnst þess vegna ánægjulegt að segja frá því að allsherjar- og menntamálanefnd hefur sammælst um að okkur finnist líka mjög mikilvægt að halda starfsemi þessa sjóðs áfram og að hann fái að starfa lengur en til 2020. Við beinum þeirri eindregnu ósk til forsætisráðuneytisins að sjá til þess að það verði gert.

Til að fara aðeins yfir hvers vegna mér finnst mjög mikilvægt að þessi sjóður fái að halda áfram að starfa langar mig að ræða aðeins um þau mörgu og mikilvægu verkefni sem sjóðurinn hefur nú þegar sinnt og þá styrki sem hefur nú þegar verið úthlutað úr honum. Ég nefni bara nokkur dæmi og þeim er alls ekki ætlað að vera gert hærra undir höfði en öðrum.

Dæmi um nokkra styrki og styrkþega: Drífa Jónsdóttir sem fékk 2 millj. kr. styrk til verkefnisins „Umfang, eðli og kostnað vegna heimilisofbeldis — lögregla, dómstólar og velferðarsvið Reykjavíkurborgar“. Með leyfi forseta segir í rökstuðningi:

„Markmiðið er að rannsaka umfang, eðli og kostnað, sem hlýst af þegar karlmenn beita konur heimilisofbeldi. Heildstætt mat á umfangi, eðli og kostnaði vegna heimilisofbeldis karla í garð kvenna hefur enn ekki verið unnið hér á landi og rannsókninni er ætlað að varpa ljósi á þá þætti. Niðurstöður rannsóknarinnar koma til með að hafa mikið og breitt vísindalegt gildi. Niðurstöðurnar munu efla vísindaumhverfi á sviði heimilisofbeldis, auk þess skapa þær betri grundvöll til markvissari og upplýstari ákvarðanatöku stjórnvalda og fagaðila í tengslum við heimilisofbeldi. Vonast er til að niðurstöður rannsóknarinnar verði hagnýttar í vinnu við að sporna gegn heimilisofbeldi og þar með við að jafna hlut kynjanna.“

Katrín Ólafsdóttir hlýtur styrk upp á 8 milljónir fyrir verkefnið „Ofbeldi í nánum samböndum út frá sjónarhorni geranda“. Í rökstuðningi segir, með leyfi forseta:

„Markmið þessa verkefnis er að rannsaka ofbeldi í nánum samböndum út frá sjónarhorni þeirra sem ofbeldinu beita. Erlendis hefur heimilisofbeldi/ofbeldi í nánum samböndum mikið verið rannsakað og birtist þar ítrekað sterkur kynjavinkill. Gerendur eru í miklum meiri hluta karlmenn. Á Íslandi hafa 22% kvenna mátt þola ofbeldi í nánu sambandi af hálfu karlkyns maka. Verkefnið miðar að því að rannsaka upplifun gerenda af ofbeldi sem þeir beita maka sinn Verkefnið byggir á tvíþættu aðferðamódeli; annars vegar viðtalsrannsókn og hins vegar magnbundinni innihaldsgreiningu […] og krítískri orðræðugreiningu […].“

Sömuleiðis fékk Kvennaráðgjöfin 2,5 millj. kr. styrk fyrir opnun þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Tilgangur verkefnisins er, með leyfi forseta, „að opna þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri 2018. Ætlunin er að opna sambærilega miðstöð og Bjarkarhlíð í Reykjavík, sem tók til starfa þann 1. febrúar 2017. Þjónustumiðstöðin verður útbúin þannig að öll þjónusta fyrir þolendur kynferðisofbeldis, ofbeldis í nánum samböndum eða þá sem eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi verði á einum stað sem auðveldar þolendum að leita sér aðstoðar. Þjónustan mun miða að því að þjónusta bæði karla og konur. Á miðstöðinni mun vera þverfaglegt teymi sem veitir brotaþolum þá þjónustu sem þeir þurfa.“

Auk þessara verkefna, herra forseti, má nefna verkefni eins og „Heimilisofbeldi – birtingarmyndir þess og hvað er til ráða?“, „Umfang, eðli og kostnaður vegna heimilisofbeldis karla í garð kvenna“, „Ungt fólk, klám og ofbeldi“ og „Alþjóðleg ráðstefna — landamærapólitík, þjóðernishyggja og femínismi“, svo fáein dæmi séu nefnd um þau verkefni sem þessi ágæti sjóður hefur styrkt fram að þessu.

Það sem þessi tillaga gerir er að skerpa aðeins á orðalaginu í þingsályktuninni, þ.e. þeim þáttum sem Jafnréttissjóður getur styrkt. Svo að ég leiti nú bara í nefndarálitið sjálft ætla ég leyfa mér að lesa úr því, með leyfi forseta:

„Með breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands er gert ráð fyrir að málefnasvið sjóðsins verði útvíkkað. Þannig verður sjóðnum sérstaklega falið að styrkja áðurnefnd verkefni þar sem áhersla er lögð á fræðslu og forvarnir.

Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að ekki ætti að takmarka styrkveitingar samkvæmt nýjum stafliðum, d–g-lið, við fræðslu og forvarnir. Þess í stað ætti að orða nýja stafliði með almennari hætti til að hlutverk Jafnréttissjóðs Íslands haldist óbreytt en að mögulegt verði eigi að síður að styrkja verkefni sem með einhverjum hætti tengist kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi.

Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að efla fræðslu og forvarnir til ungmenna á þessum sviðum og leita þarf fjölbreyttra leiða til þess. Að auki bendir nefndin á að aukin áhersla á fræðslu og forvarnir er í samræmi við tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem felur í sér margvíslegar aðgerðir til fræðslu og forvarna gegn hvers konar ofbeldi.

Nefndin bendir á að samkvæmt núgildandi c-lið 1. mgr. þingsályktunarinnar styrkir Jafnréttissjóður Íslands verkefni sem er ætlað að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. Nefndin telur að samræma verði orðalag þessa stafliðar við orðalag nýrra stafliða, d- og g-liðar, sem lagt er til að bæta við með þingsályktunartillögu þessari. Þannig er c-liður ályktunarinnar afmarkaður við kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi en d-liður þingsályktunarinnar kveður á um kynbundna og kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi, og g-liður kveður á um ofbeldi í nánum samböndum. Nefndin leggur þess vegna til að orðalagi c-liðar verði breytt þannig að Jafnréttissjóður geti styrkt verkefni sem ætlað er að vinna gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Þannig er jafnframt komið til móts við framangreind sjónarmið um að orða verkefni með almennari hætti og að mögulegt verði að styrkja verkefni sem með einhverjum hætti tengist kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi en að auki verkefni sem varða ofbeldi í nánum samböndum.

Við meðferð málsins var lagt til að bætt yrði við nýjum staflið sem kvæði á um að Jafnréttissjóður Íslands gæti styrkt verkefni sem stuðla að fræðslu, forvörnum og eftirfylgni varðandi kynferðislegt ofbeldi og áreitni á vinnustöðum. Að mati nefndarinnar eru vinnustaðir hluti af samfélaginu. Nefndin telur þess vegna að framangreind tillaga geti fallið undir d-lið 1. töluliðar þingsályktunartillögu þessarar en þar er lagt til að Jafnréttissjóður styrki verkefni sem stuðla að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi. Nefndin leggur þess vegna ekki til að bætt verði við sérstökum staflið vegna þessa.

Þá var jafnframt gagnrýnt að verkefnum sé fjölgað án þess að fjármagn til Jafnréttissjóðs Íslands aukist til samræmis við fjölgun málefnasviða. Þá var annars vegar lagt til að sameina nýja stafliði, d- og g-lið, og breyta orðalagi núverandi d-liðar 1. mgr. þingsályktunarinnar þannig að verkefni samkvæmt e- og f-lið falli þar undir. Hins vegar var lagt til að settur yrði á fót sérstakur og varanlegur sjóður til að styrkja þau verkefni sem breytingin leggur til þar sem um sé að ræða ítarleg og nákvæm málefnasvið.

Nefndin bendir á að með þingsályktunartillögunni sé lögð áhersla á að styrkja verkefni sem stuðla að fræðslu og forvarnastarfi fyrir ungt fólk um ofbeldi, áreitni, einelti og orðræðu sem ýtir undir slíkt, fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis og aukinni þekkingu á vörnum og samræmdum viðbrögðum við ofbeldi í nánum samböndum. Þannig sé brugðist við þeirri vitundarvakningu um þessi málefni sem hefur orðið á undanförnum misserum sem og #églíka/#metoo-hreyfingunni. Í ljósi þess telur nefndin mikilvægt að leggja aukna áherslu á þessi verkefni þrátt fyrir að hægt sé að færa fyrir því rök að hægt sé að sameina ákveðna stafliði eða að verkefni geti fallið almennt undir önnur verkefni samkvæmt núverandi stafliðum þingsályktunartillögunnar. Þá telur nefndin fara vel á því að fela Jafnréttissjóði að styrkja umrædd verkefni.

Í ljósi þess að verið er að fjölga málefnasviðum sjóðsins telur nefndin rétt að beina því til forsætisráðuneytisins að taka til skoðunar hvort auka þurfi fjármagn í sjóðinn að teknu tilliti til þess hvort fjölgun verkefna geti leitt til þess að hafa áhrif á styrkveitingar annarra verkefna sem sjóðnum er ætlað að styrkja.

Mikill samhljómur var á meðal umsagnaraðila og gesta um mikilvægi þess að Jafnréttissjóður Íslands yrði starfræktur til frambúðar. Þannig mætti tryggja áframhaldandi rannsóknir og stuðning við málaflokkinn. Nefndin tekur undir þetta og er það mat nefndarinnar að sjóðurinn hafi reynst málaflokknum vel. Nefndin mælir þess vegna eindregið með því að sjóðurinn verði starfræktur til frambúðar og beinir því til forsætisráðuneytisins að tryggja að svo verði, sem og framlög til sjóðsins. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við bætist nýr töluliður, sem verði 1. töluliður, svohljóðandi: C-liður 1. mgr. orðist svo: verkefni sem er ætlað að vinna gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum.“

Undir þetta nefndarálit skrifa sú sem hér stendur, Páll Magnússon, sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis, hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, með fyrirvara, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir, ásamt Þórarni Inga Péturssyni.

Eins og áður sagði, herra forseti, er mikil ánægja að segja frá því að nefndin er nánast samhuga um að Jafnréttissjóður Íslands eigi að halda áfram störfum eftir að þessum áætlaða og fyrsta skipunartíma hans er lokið. Sömuleiðis finnst mér mikilvægt að benda á að þegar við bætum við verkefnalista sjóða sem þessa mætti skoða hvort ekki mætti koma til betra og meira fjármagn til að sinna öllum þessum málaflokkum vel.

Þetta mál var unnið í mikil sátt allra flokka, bæði þegar það var fyrst lagt fram og einnig núna. Það er ánægjulegt að við erum að halda áfram á sömu braut þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun á sviði jafnréttismála.