149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[19:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Umræðan hefur verið býsna góð og fjölbreytt og hér hefur ekki verið töluð vitleysan. Mig langar sérstaklega til að minnast á ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar í því samhengi, sem dró upp ansi góða mynd af því að við viljum ekki vera lögbrjótar. Það er alveg rétt, við viljum það ekki. Því er náttúrlega klárt að við þurfum að svara því á einhvern hátt að við höfum verið dæmd fyrir Hæstarétti til að taka það upp að flytja inn ófrosið kjöt. Ég vil hvorki kalla það hrátt né ferskt af því að frosið kjöt er jú hrátt líka og við vitum ekkert hversu ferskt það kjöt er sem flutt verður inn þótt það sé ófrosið, það getur alveg hafa þiðnað upp mörgum sinnum, við vitum ekkert um það. Þess vegna þurfum við að nota orðtakið ófrosið kjöt um það sem við flytjum inn.

En ekki hefur verið mikið um það í dag að menn hafi rætt um áhrif þessa máls á neytendur, en málið hefur vissulega mjög víðtæk áhrif. Þetta allt hefur áhrif á bændur. Þetta hefur áhrif á landbúnaðinn, sem er 20.000 manna atvinnuvegur, og þetta hefur líka áhrif á neytendur. Og hvað er það sem neytendur eiga rétt á? Jú, neytendur eiga rétt á því að vera boðið upp á gæðavöru sem er ekki sýkt á einn eða neinn hátt. Neytendur eiga rétt á því að ganga að vöru sem er ekki þannig að hún sé bráðdrepandi. Ég vil geta þess að í Evrópu látast 33.000 manns hvert ár af völdum kampýlóbaktersýkinga. Ef við yfirfærum það yfir á Ísland yrðu það sirka 22 manneskjur á ári. Það er því ýmislegt sem þarf að varast í þessu. Þess vegna þurfum við náttúrlega að grípa til einhverra ráðstafana til að verða ekki fyrir einhverjum slíkum kárínum.

Menn hafa verið að tala um það frekar léttúðlega — við erum með mjög viðkvæma stofna, þ.e. dýrastofna, sem eru búnir að vera hér öldum saman og eru þess vegna mjög næmir fyrir utanaðkomandi sjúkdómum og dettur mér í hug mjög nýlegt dæmi um það, sem sagt hrossasótt sem kom hér upp vegna þess að inn voru flutt óhreinsuð reiðtygi. Þetta er mjög gott dæmi um hvað okkar stofnar eru viðkvæmir fyrir bakteríum og útsettir fyrir sjúkdómum sem hingað kunna að rata.

Í greinargerðinni á blaðsíðu 30 er reyndar texti sem hefði getað verið skrifaður í gær, 1. apríl. Hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kanna á möguleika þess að tollayfirvöld hafi sérþjálfaða hunda við tolleftirlit sem gætu þefað uppi kjöt sem kemur með ferðamönnum á helstu komustöðum til landsins, svo sem í Leifsstöð og á Seyðisfirði. Með því yrði hægt að koma í veg fyrir innflutning á kjöti sem er ekki framleitt á lögmætan hátt og sem gæti borið með sér dýrasjúkdóma.“

Þetta er reyndar alveg stórkostleg setning. Sá sem skrifaði hana hefur væntanlega ekki gert sér grein fyrir að það tekur svona eitt og hálft ár, eða tvö ár, að velja og þjálfa hund til að þefa uppi óæskilega hluti. Þetta er reyndar líka í frekar mikilli andstöðu við það að hæstv. fjármálaráðherra, í þau skipti sem ég hef átt við hann orðastað um tollgæslu, hefur verulega lítinn áhuga á tollgæslu. Ef þetta er hins vegar dæmi eða eitthvað slíkt um breytt hugarfar að því leyti, þá er þetta mjög gott. En þetta tekur eitt og hálft til tvö ár og mér skilst að sú ráðstöfun sem við erum að samþykkja, ef hún verður samþykkt í þinginu, taki gildi 1. september næstkomandi. Þá verður fíkniefnahundurinn eða kjötþefhundurinn ekki fæddur, þá á eftir að þjálfa hann og gera hann kláran.

Ég sé líka að kallaður hafi verið saman hópur út af þessu sem hafði ekki formlegt hlutverk eða stöðu og skilaði ekki niðurstöðu undir stjórn hv. þm. Brynjars Níelssonar. Ég var að velta fyrir mér hvað þessi hópur hefði gert, hvort hann hefði bara verið ráðherra svona til selskapar eða hvort hann hefði lagt eitthvað til þessa verks sem hér er.

En mig langar til að halda áfram að tala um það að við verðum að tryggja að neytendur á Íslandi geti gengið að góðum vörum, að tryggt sé að hingað til lands verði fluttar vandaðar og góðar vörur. Sporin hræða ögn vegna þess að flutt hefur verið inn — nú er náttúrlega engin nýjung að flytja inn kjöt til Íslands, það er búið að flytja inn alveg rosalega mikið af kjöti undanfarin fimm ár, mest út af því að íslenskir bændur hafa ekki haft undan — mikið magn af kjöti frá Spáni og Þýskalandi, en í báðum löndum er mjög mikil notkun sýklalyfja sem gæti haft í för með sér ónæmi fyrir fjölónæmum bakteríum.

Við vitum heldur ekki hvort þeir gripir sem kjötið er af, sem hingað hefur verið flutt inn, hafi verið fóðraðir á erfðabreyttu fóðri. Við vitum það ekki. Við þurfum því að hugsa þetta. Við þurfum líka að hugsa annað, af því að á blaðsíðu 32 segir, með leyfi forseta:

„Gera má ráð fyrir að ábati neytenda verði tæpar 900 millj. kr. á ári.“

Ég er ekki svo viss um, hæstv. forseti, að þetta sé rétt, nema að því gefnu að við flytjum inn kaupmenn líka. Það er ekki nóg að flytja inn kjöt, það verður ekki ódýrt af því að flytja það inn. Með þeirri reynslu sem við höfum nú þegar af innflutningi á landbúnaðarafurðum, þótt hún sé stutt og ekki mjög stór, þá bendir hún mjög til þess að við þurfum að flytja inn kaupmenn líka. Nú er það þannig að heildsalarnir, heildsalafélagið, hefur farið í mál við ríkið og fengið bætur upp á 3 milljarða, sem maður hefur ekki séð í verði út úr búð. Verð var lækkað til sauðfjárbænda á afurðum þeirra fyrir tveimur árum um 30% og þar áður um 10%. Sú lækkun kom hvergi fram til neytenda. Það datt að vísu upp úr einum ágætum varaþingmanni fyrir nokkrum vikum að þessi skammtur hefði dottið í vasa afurðastöðva sem væru að lepja dauðann úr skel. Þetta sýnir okkur að þessi leið, þessi virðiskeðja frá innflutningi og í körfuna í búðinni er býsna löng og hlykkjótt. Það er ekki gott að hafa eftirlit með henni allri.

Menn hafa talað hér mjög eins og vant er þegar landbúnaðarvörur ber á góma. Þá tala menn um þá stórkostlegu reynslu sem varð af því að gefa eftir tolla á paprikum, gúrkum og tómötum. Stórkostleg reynsla. Á blaðsíðu 32 segir, með leyfi forseta:

„Árið 2012 hafði framleiðsla þessara tegunda vaxið um 60% frá árinu 2001,“ — jahá, ætli fólksfjölgun eigi ekki einhvern þátt í þessu? mætti segja mér — „á meðan vöxtur í framleiðslu annarra tegunda var aðeins 5%.“

Þetta er einmitt mergurinn málsins, vegna þess að það var svo þægilegt fyrir alla að setja upp tollfríðindi á paprikur, gúrkur og tómata. Og þá voru bændur að framleiða þetta og voru bara til friðs. Síðan var hægt að okra á öllu öðru og flytja um langan veg með tilheyrandi kolefnisspori og við vitum ekkert hvernig varan var framleidd.

Það er nefnilega orðið erfiðara og erfiðara í dag að vera ábyrgur neytandi. Maður hefur heyrt mjög sjokkerandi frásagnir af því að fólk sem er að taka upp grænmeti suður í Evrópu er misnotað kynferðislega, þegar það er ekki er tína upp grænmeti. Það er nánast í mansalsaðstæðum.

Við höfum verið að flytja inn dálítið af frosnum kjúklingi frá Danmörku. Við erum ekkert nær um það hvort sá kjúklingur er danskur eða ekki, og ef ég þekki rétt hafa Danir þá reglu að ef 30% af því sem er í pokanum er danskt þá er það flutt út sem danskt, þ.e. allur pokinn, kjötið gæti þess vegna verið frá Tælandi, þar sem aðbúnaður búfjár er ekki til fyrirmyndar og þrælar frá Mjanmar sjá um vinnuna.

Þá segi ég aftur: Það er erfitt að vera ábyrgur neytandi. Mjög. Við þurfum því að gæta að slíkum atriðum því að að þessu frumvarpi samþykktu erum við jú að opna á það að hingað verði fluttar inn vörur í miklu meira magni en hefur verið. Eins og ég segi: Við vitum ekkert um upprunann á þeim. Það kemur okkur svolítið í koll núna, ég hef varað við þessu áður, að upprunamerking okkar hér innan lands er ekki nógu góð og á meðan hún er ekki nógu góð, þá eigum við mjög erfitt með að heimta mjög skýra upprunamerkingu annars staðar frá.

Síðan er það eitt sem flækir málið. Það er t.d. sú saga af grís er fæðist í Finnlandi. Hann er fluttur til Póllands til uppvaxtar. Honum er slátrað í Þýskalandi, fluttur til Finnlands og fær finnskt vegabréf. Við vitum ekki alltaf um leið vörunnar sem við kaupum. Þetta gerir náttúrlega miklar kröfur til innflutningsaðila, til matvæladreifenda á Íslandi. Eins og ég rakti áðan er sagan hingað til ekki alveg til fyrirmyndar vegna þess að við höfum verið að velja vörur frá löndum sem framleiða ódýra vöru, en sem er mjög sýklalyfjuð og við vitum ekkert um aðbúnað þeirra dýra sem kjötið er af sem er flutt hingað inn.

Af þessu öllu má sjá að þetta er vandratað og við þurfum að vanda okkur verulega mikið og það gerum við ekki með því að kaupa hund í apríl til að leyfa honum að þefa í september. Það er alveg klárt. Það dugar ekki.

Síðan er hægt að benda á það að á hverju ári í áratugi hefur verið gert upptækt mikið magn af kjötvörum á landamærum á Íslandi, bæði í Leifsstöð og á Seyðisfirði. Það kjöt hefur í mörgum tilfellum verið ófrosið en ekki mjög ferskt þegar það er gert upptækt. Það kjöt hefur ratað hingað á landamærin frá Asíu eða Austur-Evrópu, þar sem við vitum ekkert um hvort einhverjir sjúkdómar eru í dýrum og vitum ekki við hvers konar aðstæður dýr hafa búið áður en þeim var slátrað.

Þetta er því ekki einfalt mál. Ég sé ekki í frumvarpinu, þó að ég hafi ekki lúslesið það, að menn séu að reyna að girða fyrir akkúrat þetta sem ég var að segja áðan. Ég sé ekki að menn gangist fyrir því til dæmis að við fáum leyfi — nú verðum við að sækja um leyfi hjá Evrópusambandinu, þurfum að sækja um leyfi eftir þriðjudaginn í næstu viku til að fá að stinga í samband og fá rafmagn — við þurfum að fá leyfi hjá þeim væntanlega til að skima sérstaklega fyrir kampýlóbakter eða salmonellu, af því að þeir segjast vera búnir að gera það áður. En eins og dæmin sanna nýlega hér heima hefur sú skimun ekki tekist algerlega, hún er ekki ótvíræð. Með tilliti til þess, bæði lífvænleika íslenskra framleiðenda og ekki síður íslenskra neytenda, þá verðum við náttúrlega gera þá kröfu að í þessu plaggi, sem á eftir að hafa mikil áhrif fram í tímann, sé gengið þannig frá hlutum að allir geti verið sæmilega öruggir með sig, þ.e. bæði þeir sem stunda samkeppni við þessa niðurgreiddu framleiðslu, því að bændur eru væntanlega eini þjóðfélagshópurinn sem ég man eftir í fljótu bragði sem stundar samkeppni eða er í samkeppni við niðurgreidda framleiðslu. Ég man t.d. ekki eftir því að tryggingafélög séu það eða aðrir, t.d. bakarar, ég minnist þess ekki.

Það er því margs að gæta í frumvarpinu. Ég sé ekki að það sé þannig gert að við getum verið algerlega óttalaus. Ég vænti þess og vona að hv. nefnd sem tekur þetta til meðferðar vandi sig og vandi umfjöllun. En ég kem kannski nánar að því í seinni ræðum.