149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara minna á að systurflokkur Vinstri grænna með Høgna Hoydal í broddi fylkingar hefur verið einarður talsmaður þess að fara fram með uppboð í Færeyjum. Þeir eru að þreifa sig áfram. Þetta er ekkert fullkomið en þeir eru að þróa þetta áfram, m.a. í þágu réttlætis og í þágu almannahagsmuna. Það hefur verið þeirra helsta röksemd. Þetta er systurflokkur Vinstri grænna.

Ég fegin að heyra þennan tón sem kom fram hjá hv. þingmanni varðandi smábátana. Ég deili þeim áhyggjum og kannast vel við að við sjáum líka á umsögnum við frumvarpið að það er óánægja meðal þess hóps með það hvernig frumvarpið tekur á þeirra málum. Eins og ég segi kannast ég vel við það. Með sína öflugu hagsmunagæslumenn og talsmenn sem koma málum sínum skýrt á framfæri töluðu þeir við mig í ráðuneytinu á sínum tíma og voru ekkert sérstaklega glaðir með það að ég sagði að ég mundi ekki koma til móts við þá, ekki meðan dómsmálið væri í gangi. Ég taldi ekki rétt að breyta því. Og síðan ekki síður hitt að sáttanefndin svokallaða, með öllum flokkum, var líka í gangi. Ég vildi ekki gera neitt sem ruggaði þeim báti að ná mikilvægri, þjóðfélagslegri, samfélagslegri sátt um fyrirkomulag fiskveiða og gjaldtöku í því samhengi.

Hitt er hins vegar að ég hef mikinn skilning á því í tengslum við makrílinn að þetta er nýr stofn við Íslandsmið. Mig langar að spyrja, þar sem allir flokkar innan sáttanefndarinnar nema einn, Sjálfstæðisflokkurinn, lögðu fram hugmyndir og sögðust vera tilbúnir til að skoða eitthvert form á tímabundnum samningum.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Gerðu Vinstri græn einhvern fyrirvara við makrílinn um þetta? Reyndu Vinstri græn að segja: Gott og vel. Við erum ekki að hrófla við stóra fiskveiðistjórnarkerfinu, en makríllinn er upplagt tækifæri fyrir okkur til að fara inn í tímabundna samninga? (Forseti hringir.) Voru einhverjir fyrirvarar af hálfu Vinstri grænna hvað þetta atriði varðar?