149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

eigendastefna Isavia.

[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það megi segja að ef Isavia getur verið mikill örlagavaldur um þróun ferðaþjónustu í landinu þá hljóti fyrirtækið að hafa staðið sig afskaplega vel á undanförnum árum, ef marka má ofboðslega mikinn uppgang í ferðaþjónustu þar sem fjölgun í komum ferðamanna hefur mælst í tugum prósenta ár eftir ár — en nú eru hins vegar aðeins breyttir tímar.

Til að svara spurningunni um eigendastefnu er hún í vinnslu og er henni ætlað að verða ítarlegri en almenn eigendastefna og taka mið af þeim markmiðum sem við viljum sérstaklega ná fram á því starfssviði sem félagið starfar. Meðal atriða sem ég tel að við þurfum að líta til þegar skoðuð er eigendastefna fyrir Isavia eru þættir eins og það að hve miklu leyti við ætlum að fela félaginu að annast um verkefni sem það hefur ekki haft beinar skyldur til að sinna fram til þessa.

Það getur komið til þess að menn líti þá og í því sambandi sérstaklega til innanlandsflugvallakerfisins í landinu. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér hefur stundum þótt að hér á þinginu hafi menn ekki verið reiðubúnir til að horfast beint í augu við þann kostnað sem fellur til vegna þess að Ísland er tiltölulega strjálbýlt land og það fellur til mikill kostnaður við að halda úti mörgum öflugum innanlandsflugvöllum. Þann kostnað er ekki hægt að fela með því að stinga honum inn í hlutafélag, þótt það gangi ágætlega af öðrum sökum. Ég ætla í seinna svari mínu að koma aðeins nánar að Akureyri sérstaklega.