149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

jöfnun orkukostnaðar.

562. mál
[16:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem mér fannst vera mikilvægt. Mér fannst það svara ákveðnum spurningum að því leytinu til að það er sú sýn og sú hugsjón um að það búi ein þjóð í landinu, sama hvar við veljum okkur að búa. Við viljum styrkja landsbyggðina. Við viljum að lífskjör séu sem jöfnust. Auðvitað vona ég að það sé gagnkvæmt að þeir sem búa á suðvesturhorninu njóti sömu tækifæra.

En ég held að það skipti máli að við hugsum um þetta út frá því sem hæstv. ráðherra kom inn á, að gera valkostinn sterkari en nú er að búa á ákveðnum svæðum á landsbyggðinni, ekki síst vegna þess að það eru margir sem sett hafa fyrir sér hversu mikill kostnaður felst í því vegna hitaveitu og raforku. Það skiptir máli.

Ég veit líka að hæstv. ráðherra er með í farvatninu ýmsar áætlanir um hvernig hægt er að byggja upp þriggja fasa rafmagn. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli, um leið og ég vil (Forseti hringir.) nefna það mikilvæga framtak sem ráðuneytið styrkti á sínum tíma varðandi risavarmadæluna í Vestmannaeyjum, sem er sú stærsta sem ég hef séð. Ég held að það gæti haft (Forseti hringir.) gríðarlega mikla þýðingu fyrir eyjarnar.