149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef álit þessara ágætu sérfræðinga eru lesin til enda kemur einmitt í ljós að það er sú leið sem verið er að fara hér, leiðin sem viðkomandi sérfræðingar lögðu til.

Ef hv. þingmenn hafa einhverjar fyrirspurnir og velta fyrir sér orðalagi í þessu er kjörið tækifæri þegar málið kemur inn í nefnd til að spyrja frekar út í það svo að við séum algjörlega sannfærð um að við séum að gera hér rétt. Það er nákvæmlega leiðin í þinglegri meðferð.

Hér var því líka haldið fram í ræðu að við ætluðum að innleiða og kanna svo hvort þetta samræmdist stjórnarskránni. Við erum með ítrekuð álit frá sérfræðingum og frá þingnefndum Alþingis að við teljum það vera svo.

Þannig að ég skil ekki, virðulegur forseti, hvert hv. þingmaður beinir orðum sínum þegar svona er sagt. Ég minni hann á að við erum í fyrri umræðu um þessa ágætu þingsályktunartillögu. Ég ætla að leyfa mér að efast um að nokkurt annað þingmál, hvað þá EES-gerð, hafi fengið jafn mikla umfjöllun, marga sérfræðinga að málum, marga (Forseti hringir.) embættismenn að málum og marga þingmenn og þingnefndir í gegnum tíðina.