149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég var hér í fyrra andsvari að halda staðreyndum til haga, það er mikilvægt í þessari umræðu. Það eru miklir hagsmunir undir og rétt að velta upp spurningum. Ég ætla aðeins að halda áfram með svar hæstv. ráðherra til hv. þm. Óla Björns Kárasonar við skriflegri fyrirspurn, það staðfestir bara málið, með leyfi forseta:

„Við lögfestingu EES-samningsins voru orkumál hluti samningsins þótt stefnumótun og lagasetning ESB um innri markað raforku hafi ekki verið langt komin á þeim tíma.“

Þá er það bara staðfest, hv. þingmaður. Um þetta er að sama skapi fjallað í greinargerð með málinu.

Hv. þingmaður, vil ég segja, fór mikinn í sinni ræðu. Ég gæti ekki hér í þessu stutta andsvari farið yfir það allt og spurt hv. þingmann út í alla þá þætti. En mér fannst hv. þingmaður ganga ansi langt oft og tíðum. Ég verð að segja það. Og ég fékk þá tilfinningu að hv. þingmaður myndi jafnvel vilja ganga svo langt að segja upp EES-samningnum, sem við höfum vissulega alltaf möguleika á að gera. Bara svo að hv. þingmaður geti þá komið þeirri skoðun á framfæri ef svo er, þá spyr ég hv. þingmann að því.

Varðandi álit sérfræðinga — ég vil segja það hæstv. ráðherra til hróss að hann hefur undirbúið málið mjög vel. Það er mikið vitnað til álits sérfræðinga, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, þar sem það er óyggjandi að sú lausn er fær sem farin er. Þess vegna höfum við kannski þurft að bíða aðeins eftir þessu máli inn í þingið. En á móti kemur að það er vandað og það er viðurkennt að þessi lausn getur gengið upp.