149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hún er alveg merkileg fórnarlambsvæðingin sem hefur hlaupið í þingmenn Miðflokksins. Þeir koma hér aftur og aftur upp og barma sér yfir því að vera (Gripið fram í: Kallaðir …) kallaðir í rauninni lýðskrumarar í þessu máli, þegar það blasir við. (BirgÞ: Bara vera málefnalegur.) Ég sagði ekki að ég hefði ekkert umburðarlyndi fyrir skoðunum þingmanna Miðflokksins eða fyrir Miðflokknum. (BirgÞ: Þú sagðir það.) Ég sagðist ekki hafa umburðarlyndi fyrir málflutningi Miðflokksins í þessu máli og á því er stór munur, hv. þingmaður.

Ég spyr þá á móti: Er það öllu málefnalegra að koma upp á tveggja mínútna fresti eða tíu mínútna fresti og tala um að hér brjóti meiri hluti þingmanna stjórnarskrá, þegar okkar færustu stjórnskipunarsérfræðingar hafi komist að því að það er ekki svo? Ekki er það sérstaklega málefnalegt.

Hvað varðar þátttöku Samfylkingarinnar í fyrsta og öðrum orkupakka ætla ég að biðja hv. þingmann vinsamlegast að skoða þá atkvæðagreiðslu betur. Reyndar voru margir fjarverandi, það virðist hafa verið einhver umgangspest, en það voru líka margir sem greiddu atkvæði með því. Þetta var ekki eins og hv. þingmaður hefur farið yfir málið í ræðu eftir ræðu.

Hvað varðar afstöðu okkar til norsku verkalýðshreyfingarinnar og norska Verkamannaflokksins eigum við í ágætu samstarfi við báða þá aðila. Hins vegar hefur Samfylkingin algjörlega sjálfstæða skoðun í málinu og við höfum meira að segja sett okkur upp á móti stefnu systurflokka okkar á Norðurlöndunum, eins og danska Jafnaðarmannaflokksins, þegar okkur hefur fundist þau vera orðin fullkeimlík Miðflokknum í málefnum þegar kemur að innflytjendum. (ÞorS: Halló-ó.)