149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Greinargerð Friðriks Árna Friðrikssonar og Stefáns Más Stefánssonar hefur einmitt mikið verið til umræðu. Eins og fram hefur komið í ræðum margra er í rauninni verið að tala um tvær lausnir. Það er annars vegar lausnin sem við erum með á borðinu núna. Þannig að ég fæ ekki skilið annað en að þessar forsendur haldi því það er það sem þessir sérfræðingar lögðu til, þ.e. að fara þá leið sem hér liggur fyrir. Það kunna að vera einhverjar spurningar um það og mér finnst mjög eðlilegt að við spyrjum þeirra þegar málið kemur til umræðu í hv. utanríkismálanefnd.

En vita menn hvert þeir eru að fara? Ég veit hvert við sem meiri hluti erum að fara og hvert hæstv. ráðherra stefnir í þessu máli, en á sama tíma hafa hv. þingmenn Miðflokksins talað fyrir því að senda málið aftur inn í EES-nefndina. Þá spyr ég á móti: Vita hv. þingmenn Miðflokksins hvað þeir eru að tala um í þeim efnum? (Gripið fram í: Já.) Hvað þýðir það? Hvert stefnum við þá? Hver verður niðurstaðan úr því? (Gripið fram í.) Hafa hv. þingmenn svar við því? Því að ég held einmitt að við höfum svör við því hver sú leið er sem við erum með á borðinu núna. Hún liggur fyrir í álitum margra helstu sérfræðinga okkar, svo og í meðförum þings og þingnefnda og embættismanna, í samtölum við orkumálastjóra og aðra fulltrúa frá Evrópusambandinu. Það er það sem liggur fyrir.

Varðandi hina leiðina spyr ég hv. þingmann: Vita þingmenn Miðflokksins hvert þeir stefna? Hvað kæmi út úr slíkri vegferð?