149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[23:07]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Við höfum farið allítarlega yfir málin, en það er þó rétt að mínu mati að hnykkja enn og aftur á staðreyndum þegar við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun, EES-reglur, viðurlagaákvæði.

Frumvarp þetta hangir saman við þingsályktunartillögu sem rædd var fyrr í kvöld. Hér er verið að breyta raforkulögum til að stoppa upp í göt á stórlega gallaðri tilskipun um breytingu á viðauka við EES-samninginn. Hér er verið að búa til nýja stofnun eða ef menn vilja líta svo á, kalla gamla stofnun nýju nafni og breyta hlutverki stofnunarinnar verulega. Það sem er alvarlegast er að hin nýja stofnun mun ekki lúta íslensku valdi. Þessi stofnun mun fara með æðsta vald á sviði orkumála. Stofnunin fer í raun með ráðherravald á þessu sviði en verður óháð ríkisvaldinu og öllum hagsmunaaðilum í landinu. Stofnunin mun lúta boðvaldi ESA en drög að öllum helstu ákvörðunum og fyrirmælum til hennar verða samin hjá ACER, orkustofnun ESB. Ísland mun ekki hafa atkvæðisrétt í ACER heldur áheyrnarrétt og málfrelsi. Fyrir þjóð sem vill ekki vera í ESB er valdframsal af þessu tagi til ESB yfir raforkumálum landsins óviðunandi.

Forseti. Mig langar að vitna í hluta af greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Önnur ný verkefni á sviði raforkueftirlits sem leiðir af þriðju raforkutilskipuninni eru eftirfarandi:

1. Nýjar skyldur á sviði neytendaverndar og eftirlits með smásölu- og heildsölumarkaði raforku. Athuganir á starfsemi raforkumarkaðar og ákvarðanir um að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni og tryggja að markaðurinn starfi eðlilega.

2. Yfirferð netmála (tæknilegra skilmála) ásamt eftirliti með veitingu jöfnunarþjónustu Landsnets.

3. Þátttaka í ACER („Agency for the Cooperation of Energy Regulators“).

4. Nýjar heimildir til beitingar stjórnvaldsviðurlaga.

5. Eftirlit og skýrslugerð um raforkuöryggi, samanber 4. gr. tilskipunarinnar.“

Ég vek sérstaka athygli á lið 3 og 4, en þar er um grundvallarmál að ræða. Hér er verið að leiða í lög þátttöku í ACER og auknar heimildir til stjórnvaldssekta. ACER mun verða stofnun sem ætlað er mikið og stórt hlutverk, en hér er verið að lögleiða valdheimildir undirstofnunar ACER á Íslandi. Það er eðli ACER og hvernig það mun virka sem ég geri mestar athugasemdir við.

ACER mun samkvæmt reglugerð nr. 713/2009 hafa eftirfarandi verkefni: Hún hefur málsaðild í dómsmálum í aðildarríkjum. Hún á að bæta gloppur í löggjöf á vettvangi EES. Hún á að stuðla að skilvirkri samkeppni innri markaðar fyrir raforku. Hún á að stuðla að framkvæmd viðmiðunarreglna fyrir samevrópsk orkunet. Hún á að aðstoða eftirlitsaðila á orkumarkaði við beitingu valdheimilda innan ESB og samhæfa aðgerðir.

Þá er gert ráð fyrir nýjum heimildum til að áminna og leggja stjórnsýslusektir á fyrirtæki á orkumarkaði, hvort sem um er að ræða vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki eða dreifiveitur vegna brota á ákvæðum raforkulaga. Slíkar ákvarðanir yrðu ekki kæranlegar til ráðuneytisins heldur úrskurðarnefndar raforkumála.

Það er því miður erfitt að útskýra í stuttu máli hvernig stofnun eins og ACER mun virka í grunninn, en sagt er að ACER og ESA skuli eiga í nánu samstarfi við undirbúning ákvarðana, yfirlýsinga og hvatningar. Þetta er ótrúverðugt í ljósi þess að 27 ríki standa að baki ACER og að ESA hefur aldrei gegnt neinu öðru hlutverki en að fylgjast með framkvæmd regluverks ESB í EFTA-löndum EES. Í reynd mun ACER, orkustofnun ESB, ná yfirþjóðlegri stöðu á Íslandi. Það þýðir að regluverk orkupakkans mun yfirkeyra íslensk lög, standa skör hærra í lagalegu tilliti.

Það er mögulegt að íslensk stjórnvöld geti ekki komið í veg fyrir lagningu sæstrengs vegna viðskiptafrelsishluta fjórfrelsisins sem við höfum undirgengist. ESB geti þannig skyldað íslensk stjórnvöld til að heimila lagningu sæstrengs. Það mun því verða álitamál hvort lög á Íslandi muni halda ef til þess kemur. Það er raunhæfur möguleiki að ACER muni beina tilmælum til okkar enda er það skýrt að þrátt fyrir að ESA taki fullan þátt í starfi ACER verður ESA þó án atkvæðisréttar. Tilmælum gæti því verið beint til okkar að við yrðum að leyfa lagningu sæstrengs. Þessum vafa hefur ekki verið eytt að mínu mati enn þrátt fyrir þessa miklu og ítarlegu og að mörgu leyti öflugu umræðu sem hér hefur átt sér stað.

Herra forseti. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Þessi umræða er enn að laða fram staðreyndir. Hér er ekki verið að meitla neitt í stein. Þetta eru mannanna verk og þeim er auðvelt að breyta á skömmum tíma. Hér þarf ekki annað en að verða stjórnarskipti og það hefur nú stundum gerst með litlum fyrirvara og þá liggur landið með öðrum hætti.

Herra forseti. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson fullyrti réttilega í ræðu sinni áðan að við gætum aldrei varið okkur 100% með lagalegum fyrirvörum í slíkum málum. Þarna er ég, herra forseti, sammála hv. þingmanni í fyrsta skipti í dag. Þrátt fyrir að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson sé eindreginn stuðningsmaður málsins samkvæmt því sem hann hefur sagt í dag þá segir hann, eins skýrt og hægt er og kristallar málið, kemur í raun og veru að kjarna málsins, að við getum aldrei með 100% lagalegum fyrirvörum í slíkum málum varið okkur að fullu. Ég hef eiginlega engu við að bæta við ræðu hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar.