149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög.

792. mál
[23:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að vera óblandaður hérna. Í upplýsingum sem Evrópusambandið hefur gefið út, yfirlitsmynd, er gert ráð fyrir sæstreng til Íslands sem næsta streng sem lagður verður. Spurning mín og áhyggjur mínar eru svolítið tengdar því sem Landsvirkjun er búin að vera að aðhafast núna í þó nokkurn tíma við að undirbúa lagningu sæstrengs. Í fyrsta lagi væri athyglisvert, og það mun kannski koma fram í fyrirspurn seinna, að fá upplýsingar um það hversu miklum peningum Landsvirkjun hefur varið í undirbúning á sæstreng sem stjórnvöld hingað til hafa afneitað að hafa áhuga á. Það væri fróðlegt fyrir skattgreiðendur í landinu að heyra af því.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé nú næsta víst að Landsvirkjun hafi látið af því að vinna að þessum undirbúningi, hvort það sé tryggt að það sé búið að leggja á hilluna þær áætlanir og þær bollaleggingar sem Landsvirkjun hafði uppi. Mig fýsir mjög að fá ráðherra til að svara mér því hvort tryggt sé að nú sé búið að koma böndum á þetta fyrirtæki í eigu þjóðarinnar, hvers ráðamenn hafa núna í nokkurn tíma leikið lausum hala og eytt peningum í að undirbúa sæstreng sem ég hélt að stjórnvöld, bæði fyrrverandi og núverandi, hefðu ekki í hyggju að yrði tengdur.