149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:19]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það sýnir sig bara í umræðunni að þetta er flókin umræða. Hún er mjög flókin. Þess vegna fagnaði ég því í gær í ræðu minni að umfjöllun um þessar umdeildu EES-gerðir færi fram hér og eins og hv. þingmaður benti á er þriðji sólarhringurinn að byrja. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er mjög flókin umræða og fyllsta ástæða til að fara varlega.

Mér finnst skipta máli varðandi sæstreng, og það er enginn misskilningur þar, hér liggur frammi þingsályktunartillaga um að Alþingi hafi síðasta orðið í því. En við vitum samt sem áður að margir hafa alveg örugglega, það hefur heyrst af aðilum úti í hinum stóra heimi, sem hafa áhuga á að nálgast hér græna orku. Það er bara ósköp eðlilegt.

En ég vil, hæstv. forseti, að við nálgumst þetta verkefni þannig að Íslendingar hafi fullt forræði yfir þeim stofnunum sem munu höndla með þau mál. Þar nefni ég þá stofnun sem fengið hefur það valdframsal sem svo virðist vera, og að farið verði sérstaklega vel yfir að það eru Íslendingar sem (Forseti hringir.) ráða í þeim málum en ekki Evrópusambandið.