149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í gær felldi kærunefnd jafnréttismála úrskurð sinn og birti opinberlega á heimasíðu sinni. Í úrskurðinum segir svo, með leyfi forseta:

„Kærandi, sem er kona, taldi að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu karls í stöðu þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum. Að mati kærunefndarinnar töldust nægar líkur hafa verið leiddar að því í skilningi 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns þannig að sú skylda yrði lögð á kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun hans. Samanburður kærða á hlutlægum þáttum, sem lagðir voru til grundvallar í auglýsingu starfsins, gaf til kynna að kærandi og karlinn hefðu verið því sem næst jafn hæf. Við þær aðstæður bar að gæta sérstakrar vandvirkni við mat á huglægum þáttum sem leggja átti til grundvallar við ráðninguna samkvæmt auglýsingu kærða á starfinu. Að mati kærunefndarinnar gerði kærði það aftur á móti ekki með fullnægjandi hætti. Niðurstaða kærunefndarinnar var sú að kærða hefði ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Taldist kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.“

Virðulegi forseti. Þetta er gríðarlegur áfellisdómur, ekki bara yfir Þingvallanefndinni sem slíkri, ekki bara yfir formanni nefndarinnar, heldur yfir þingheimi öllum. Hvað ætlum við að gera, virðulegi forseti, til þess að svona lagað sé ekki síendurtekið að koma í ljós? Það virðist vera að við fjöllum af léttúð og kæruleysi um mál sem þessi.