149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[22:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp og fyrir mjög góða ræðu hennar hér áðan. Ég verð að segja að ég er bara rosalega spennt fyrir þessu máli. Mér finnst þetta frábært tækifæri og ég er reyndar þannig þenkjandi að ég myndi jafnvel vilja ganga enn lengra. En allt í lagi, ég sætti mig líka við að við þurfum stundum að stíga nokkur skref í áttina.

Ég tek bara undir það með ráðherra hversu mikilvægt er að byggja grunninn fyrir kennarastéttina og starfsþróun kennara. Ég vil líka líta þannig á að það sé svo mikilvægt fyrir vinnustaðinn, skólana, að hafa fjölbreytta reynslu. Ég held að flestöll fyrirtæki í dag vilji einmitt fjölbreytileika. Það er ekki bara þetta með kynið, það er líka með aldurinn og það er líka með menntunina.

Ég var lengi í sveitarstjórn í Mosfellsbæ og ég veit að við vorum með þeim fyrstu þegar við fórum að prófa okkur áfram með svokallaðar fimm ára deildir þar, sem voru þá leikskóladeildir, í grunnskólunum og ég man hvað bæði leikskólakennarar og grunnskólakennarar voru ánægðir með þá tilraun okkar og ekki síður foreldrarnir og börnin. Ég man eftir umræðu milli þessara fagstétta um hvað þær væru að læra hver af annarri og hversu mikilvægt væri fyrir grunnskólakennarann að sjá leikskólakennarann að störfum við það hvernig hann kennir í gegnum leik og svo öfugt. Síðan þróaðist þessi reynsla okkar í Mosfellsbæ og ég veit að mörg sveitarfélög og margir skólar eru byrjaðir með þetta. Opnaður var skóli sem er sem sagt bæði leikskóli og grunnskóli, yngsta stig grunnskólans, heitir Krikaskóli. Ég veit að þar hefur líka gengið mjög vel. Ég hitti aðstoðarskólastjóra þess skóla um daginn á förnum vegi og við tókum tal saman. Hún var að lýsa því hversu mikilvægt það væri að hafa fjölbreytta starfsmannaflóru. Þetta er skóli sem er einstaklega skemmtilegt kennsluform og glæsileg bygging sem er hönnuð í kringum kennsluaðferðir og annað. Þau hafa þar af leiðandi líka verið svo lánsöm, talandi um það sem hæstv. ráðherra kom einmitt inn á, að aðbúnaður skiptir máli og umhverfi sem fólk starfar í, að þar sækja margir um. Þá kemur kannski að því þar sem ég sagðist vilja ganga enn þá lengra, þ.e. að viðurkenningunni og starfsöryggi þeirra sem hafa háskólapróf þó að þeir hafi ekki kennsluréttindi. Það að vera með þverfagleg teymi vel menntaðra og reyndra kennara, leikskólakennara, grunnskólakennara, jafnvel sálfræðinga, þroskaþjálfa, náttúrufræðinga — við gætum haldið áfram endalaust. Ég held að það sé mjög mikill akkur í því þegar skólastofnanir eins og aðrar stofnanir eða fyrirtæki hafa þessa fjölbreyttu flóru. Þá ætla ég ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að stærsti hlutinn hafi kennaramenntunina og uppeldisfræðina á bak við sig.

Ég held að þetta sé einmitt svolítið svarið við síbreytilegu umhverfi sem við störfum í og þess vegna fagna ég því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram og ég held að það sé af hinu góða. Þó að ég sé ekki búin að grandskoða þetta hef ég, eins og fleiri hv. þingmenn sem hafa tekið hér til máls, orðið vör við fréttaflutninginn varðandi umsagnir sem komu inn á samráðsgáttina. Það er eðlilegt að þegar verið er að leggja til einhverjar breytingar að upp komi ákveðin hræðsla og fólk óttist um sína starfsstétt og sín réttindi og alls konar mál sem kynnu að koma upp, en ég held að þetta sé til mikilla bóta. Ég hef trú á því að þetta væri mikil framför fyrir okkur og hvet því til þess að nefndin taki þetta fyrir með jákvæðum hætti.

Hæstv. ráðherra minntist á frétt sem var á Hagstofunni í dag þar sem var fjallað um að áttundi hver kennari hefði verið án kennsluréttinda haustið 2018. Við vitum ekki hvaða annað grunnnám þessir kennarar sem voru án kennsluréttinda höfðu. Það getur vel verið að þótt margir af þessum ágætu starfsmönnum séu ekki með kennsluréttindi séu þeir bara mjög færir og hæfir í sínum störfum og ég efast ekki um að velflestir eru það.

Það sló mig líka í þessari frétt, og það er svo sem ekkert nýtt heldur eitthvað sem við vitum mjög vel, þessi fækkun karlmanna í stéttinni. Ég tala mikið fyrir jafnrétti kynjanna og það er margsannað að fyrirtækjum og samfélögum sem nýta krafta beggja kynja vegnar einfaldlega betur þannig að ég verð að viðurkenna að það er mér mikið áhyggjuefni, virðulegur forseti, hversu fáir karlmenn virðast sækja í kennaranámið og í kennslu í skólunum. Ég vona jafnframt að allar aðgerðir í þessa átt séu til þess fallnar að auka fjölbreytileikann í skólunum hvað starfsþróunina varðar og þá er ég sérstaklega að vísa til kyns hvað þetta varðar. Ég sé líka á tölum á vef Hagstofunnar að það er ekki bara í fjölda kennara heldur líka fjölda skólastjórnenda sem áður fyrr voru miklu fleiri karlmenn — ef ég les rétt úr þessu línuriti held ég í að kringum 2006 hafi það verið sirka jafn margir karlmenn og konur sem sinntu störfum skólastjórnenda en nú hallar verulega á karlmenn.

Við berjumst fyrir því í þessum sal, virðulegur forseti, að fá fleiri konur í stjórnendastörf vegna þess að yfirleitt er það þannig að ef kona er í æðstu stjórnum fjölgar þeim líka í millistjórnendastöðum. Ég hef alveg þessar sömu áhyggjur þó að það sé með öfugum formerkjum þegar kemur að fræðslustofnunum okkar og skólunum okkar og hvet hæstv. ráðherra til að huga sérstaklega að þessum efnum.

Ég hjó líka eftir því í þessari ágætu frétt að talað var um að grunnskólanemendur með erlent móðurmál hafi aldrei verið fleiri. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur talað mjög fyrir þeim málum og hvernig við komum til móts við einstaklinga, við börn í skólunum okkar, á þeirra forsendum. Það eru stöðugt fleiri sem eru af erlendu bergi brotin og eru tvítyngd eða þurfa að taka íslenskuna sem annað eða jafnvel þriðja tungumál. Þau þurfa að fá til þess aðstoð til að geta nýtt þau tækifæri sem bjóðast í íslensku samfélagi í framtíðinni.

Þá fór ég að huga að því, virðulegur forseti, hver væru réttindi kennara sem eru af erlendu bergi brotnir. Í 10. gr. frumvarpsins er fjallað um réttindi sem aflað er í ríki innan EES eða í aðildarríki EFTA og þar segir að Menntamálastofnun staðfesti leyfi til að nota starfsheitið kennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins — eða Færeyjum, stendur svo hér. Að sjálfsögðu þarf viðkomandi að leggja fram ákveðin vottorð og viðurkenningar hvað þetta varðar. Ef hæstv. ráðherra kemur upp í ræðu á eftir og hefur einhverjar frekari upplýsingar um það hvort við vitum eitthvað um það hversu margir kennarar starfa hér sem koma frá hinum EES-löndunum langar mig líka að benda á að hér eru Færeyjar sérstaklega tilgreindar en af því að ég er í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins, og okkur þykir mjög vænt um bæði Færeyjar og Grænland sem er hvorugt innan EES-svæðisins, velti ég fyrir mér hvort kannski sé ástæða til að hnýta Grænlandi við þessa grein.

Ég held ég hafi þetta ekki lengra. Eins og ég sagði áðan fagna ég mjög þessu frumvarpi og held að við séum á góðri vegferð. Ég hvet til þess með svona breytingar eins og aðrir að við fylgjumst vel með þróuninni, hvort við séum að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Það kemur ágætlega fram í greinargerðinni að við t.d. höfum ekki alveg náð þeim markmiðum sem við settum okkur með — ég ætlaði að fara að segja nýju grunnskólalögunum af því að þau voru svo lengi kölluð það, en þau eru ekkert ný því að þau eru orðin tíu ára gömul. Það er ástæða til að vera stöðugt á vaktinni hvað það varðar og eins og ég segi, ef reynslan af þessu er góð finnst mér líka mega velta fyrir sér starfsöryggi og réttindum starfsfólks með annars konar háskólabakgrunn en kennslufræði í okkar skólakerfi.