149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

Þjóðgarðastofnun og þjóðgarðar.

778. mál
[18:24]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þetta síðasta sem ráðherra kom inn á er kannski ástæðan fyrir því að ég velti þessu fyrir mér, þ.e. af hverju minjaverndin getur verið í sérlögum en ekki náttúruverndin. Ég held að það sé eitthvað sem við í nefndinni þurfum virkilega að fara yfir.

Eins og ég kom inn á í upphafi tel ég mikilvægt að finna aðferðafræði til að hafa samstarf um stjórnun og nýtingu á landi sem við viljum vernda með einhverjum hætti. Þetta samstarf þarf að snúast um hefðbundnu nytjarnar, ferðaþjónustunytjar og hugsanlega veiðinytjar og eitthvað nýtt sem við þekkjum ekki núna og við þurfum að finna aðferðafræði til þess.

Þurfum við hugsanlega lengri tíma til að þroska samtalið um aðferðafræðina? Þá er ég ekki endilega að meina hér á Alþingi eða í stjórnsýslunni heldur í samstarfi við alla samstarfsaðila. Og hvernig gerum við það? Gerum við það með því að fá gesti fyrir nefndina eða þurfum við að vinna í því á fleiri stöðum?

Svo er í frumvarpinu kveðið á um ákveðna þætti sem þarf að fara í strax og er búið að samþykkja að hafa í frumvarpinu, t.d. að ráða forstöðumann sem undirbýr gildistöku laganna, en þá komum við einmitt að sama atriðinu. Hvernig getum við undirbúið samstarf við einstaklinga og félög og sjálfboðaliða sem nú þegar sinna jafnvel mikilvægum hlutverkum á þessum svæðum?