149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

skráning einstaklinga.

772. mál
[16:54]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Ég get ekki annað en tekið undir með honum að það er náttúrlega mjög brýnt að fjármagn verði tryggt í þetta. Eins og hæstv. ráðherra nefndi eru mörg mikilvæg mál sem hanga á þeirri spýtu. Það er bagalegt að mörg góð mál tefjist eða að setja þurfi lög og fresta gildistöku þeirra þó nokkuð fram í tímann vegna þess að kerfið ræður ekki við þær góðu breytingar sem lagðar eru til.

Auðvitað getur maður líka spurt sig hvort það sé góður bragur á því að vera að leggja fram frumvörp sem óhjákvæmilega hafa í för með sér útgjöld og vísa vandanum raunverulega fram í tímann. Hefði ekki verið eðlilegri röð að ræða það að tryggja þetta fjármagn og leggja síðan fram frumvarp í tengslum við það? Þetta virkar óneitanlega svolítið sérkennileg röð hlutanna, að vera samhliða að ræða fjármálaáætlun til næstu ára og síðan frumvörp sem gera ráð fyrir tilteknum útgjöldum og skjölin stemma alls ekki saman. Ég held að það sé a.m.k. ekki til eftirbreytni og hvet hæstv. ráðherra til að ræða við samráðherra sína og fá síðan fulltingi þingsins til að afla þessa fjármagns. Ég hvet hann jafnframt til að bera það inn á ríkisstjórnarborð og reyna að bæta þau vinnubrögð.