149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Einu sinni enn ætla ég að ræða jöfnun orkukostnaðar. Skömmu fyrir páska fékk ég munnlegt svar frá hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og þessi mál voru rædd hér í þingsal. Jöfnun orkukostnaðar á landsvísu er tvískipt mál. Annars vegar eru það niðurgreiðslur ríkisins vegna húshitunar á köldum svæðum. Sú niðurgreiðsla tryggir að mestu jöfnun á húshitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis á milli þeirra sem hita hús sín með jarðvarma og þeirra sem eiga ekki kost á því. Hún á við húshitun heimila. Hins vegar er það jöfnun dreifikostnaðar raforku í dreifbýli og þéttbýli. Um það fer samkvæmt lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Dreifikostnaður raforku er miklu hærri í dreifbýli en þéttbýli og til að jafna þann mun er lagt á alla viðskiptavini jöfnunargjald raforkudreifiveitna.

Samkvæmt fyrirliggjandi fimm ára fjármálaáætlun er sett markmið um að hlutföll í jöfnun dreifikostnaðar fari úr 53% í 85% árið 2024. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að unnið sé að útfærslum á leiðum til að ná því markmiði á vegum starfshóps ráðuneytisins og Orkustofnunar. Þar komi tvær leiðir helst til greina, annars vegar að tvöfalda núverandi jöfnunargjald eða að samþætta og sameina gjaldskrár dreifiveitna í landinu óháð því hvort um er að ræða dreifbýlisgjaldskrár eða þéttbýlisgjaldskrár.

Ég vil leggja áherslu á að leiðin sem verður valin skapi jafnræði milli heimila og atvinnulífs í landinu, að atvinnulíf í strjálbýli sitji við sama borð varðandi kaup á raforku og samkeppnisaðilar í þéttbýli, og einnig að í öllum aðgerðum varðandi aukna sjálfbærni með orkunotkun, svo sem varmadæluvæðingu o.fl., verði lögð áhersla á alla raforkunotkun í strjálbýlinu, ekki bara heimilin.