149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[17:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Mig langar að segja það í upphafi ræðu minnar að mér hugnast þetta fyrirkomulag vel að tala hér um utanríkis- og alþjóðamál sér, þ.e. að taka EES-partinn og ræða hann sérstaklega.

Ég er ein þeirra sem talað hafa fyrir því að hér gefist meiri og betri tími til að ræða utanríkismálin. Það eru rosalega viðamikil mál, eðli máls samkvæmt, sem falla hér undir. Þess vegna held ég að þetta fyrirkomulag eigi eftir að reynast vel, að skipta þessu í tvennt og hlakka til að fylgjast með umræðunni um EES-málin, sem verður hér eftir u.þ.b. tvær vikur. Mér finnst þetta alla vega lofa góðu.

Skýrsla utanríkisráðherra er viðamikil. Komið er inn á mjög marga og fjölbreytta þætti, eðli máls samkvæmt. Það eru nokkur atriði sem mig langar að taka út og tæpa á í ræðu minni. Mig langar að byrja á hlutum sem ég er afskaplega ánægð með og fagna. Ein af þeim er áherslan sem hér er lögð á jafnréttismálin. Mér finnst það til fyrirmyndar að Ísland leggi áherslu á jafnréttismál og finnst mikilvægt að það sé gert bæði hvað varðar kynjajafnrétti og annars konar jafnrétti, jafnrétti annarra hópa. Ég var mjög ánægð með það í ræðu hæstv. ráðherra fyrr í dag þar sem hann greindi frá því hvernig verið væri að flétta inn í vinnu ráðuneytisins og þeirra sem starfa á vegum Íslands að praktísera það sem við tölum fyrir. Ég held að það sé mjög mikilvægt því að það er leiðinlegt að vera í þeirri stöðu þegar fólk segir öðrum til um hvernig það eigi að haga sér, að maður hafi ekki sannfæringu fyrir því að sá sem segir öðrum til fari eftir því sjálfur. Þannig að ég tel að við eigum að halda áfram á sömu braut og að við þurfum að gefa enn meira í hér innan lands á öllum sviðum jafnréttismála. Mér finnst það góð og mikilvæg áhersla.

Ég ætla líka að koma aðeins inn á þróunarsamvinnuna. Hér hefur talsvert verið talað um skiptingu fjármagnsins í málaflokkinn, annars vegar það sem fer til málefna hér innan lands eða sem fer til málefnasviðs flóttamanna og hælisleitenda, og hins vegar það sem fer út til þess sem sumir myndu vilja kalla raunverulega þróunarsamvinnu. Ég vil halda til haga þeirri sýn minni að við eigum að taka það sem gert er hér innan lands af öðrum fjármálaliðum, ef svo má segja. Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð en vil halda því sjónarhorni til haga. Að þessu þarf að huga við gerð bæði fjárlaga- og fjármálaáætlunar.

Mig langar að hrósa fyrir kaflann þar sem fjallað er um upplýsingamiðlun og þróunarsamvinnu. Þar er sagt frá gerð heimildarþátta sem sýndir voru á RÚV þar sem við fengum að fylgjast með ungri stúlku fara til Úganda og kynna sér, og okkur um leið, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Mér fannst það algerlega til fyrirmyndar og myndi vilja sjá meira af slíku því að ég held að það sé alveg frábær leið til þess að sýna fram á hvers vegna þróunarsamvinnan er svona mikilvæg, og fræða ungt fólk og hreinlega okkur öll um við hvaða aðstæður stór hluti heimsbyggðarinnar býr.

Ég held að það sé sérstaklega mikilvægt nú þegar við erum farin að sjá áhrif loftslagsbreytinga sem valda hamfaraveðrum í heiminum og sérstaklega hörmungafréttirnar sem berast frá Mósambík, sem við erum reyndar ekki lengur í tvíhliða þróunarsamvinnu við en er þó engu að síður áhersluland Íslands þegar kemur að þróunarsamvinnu. Þannig að ég held það sé rosalega mikilvægt að fjalla um þessi mál. Ég veit að upplýsingagjöfin hefur verið að aukast, bæði með gerð þessara sjónvarpsþátta en einnig með tengingu á fréttabréf Heimsljóss sem segir fréttir af þróunarsamvinnu. Ég tel það mjög af hinu góða.

Ég get ekki látið hjá líða að koma aðeins inn á afvopnunarmálin. Það er kafli í skýrslunni þar sem er fjallað um afvopnun á krossgötum, þar sem fjallað er um að blikur séu á lofti þegar kemur að samningum sem gerðir hafa verið um eyðingu kjarnavopna, þá bæði NPT-samningnum, sem mikilvægt er að standa vörð um, en einnig samningnum um meðaldrægar kjarnorkuflaugar sem sagt hefur verið upp. Það eru gríðarlega váleg tíðindi fyrir heimsbyggðina.

Ég veit að ég og hæstv. ráðherra erum ekki alveg sammála þegar kemur að því hvernig standa beri að kjarnorkuafvopnun í heiminum öllum. Mér finnst mikilvægt að komið sé inn á þetta í skýrslunni þótt ég hefði viljað kveða miklu fastar að orði og fjalla um að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er orðinn til samningur um að kjarnorkuvopn skuli verða bönnuð. Skrifa sífellt fleiri ríki undir þann samning og hafa enn fleiri fullgilt hann.

Að lokum langar mig að segja að við tölum stundum um að við séum lítil og fámenn þjóð, en um leið höfum við trú á okkur sjálfum og vitum að við getum skipt máli á alþjóðavettvangi. Mig langar bara að nefna þingsályktunartillögu sem samþykkt var árið 2014, sem var mjög hógvær og fjallaði um að Alþingi fæli utanríkisráðherra að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara yrði virtur í samræmi við ályktanir öryggisráðs og allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Þetta er gríðarlega hógvær ályktun en hún hefur skipt máli. Ályktunin skipti þjóð sem býr við hörmulegar aðstæður í flóttamannabúðum mjög miklu máli, þannig að við höfum áhrif.

Að lokum langar mig þessar síðustu sekúndur til að koma inn á umhverfismálin. Fjallað er um umhverfismál og loftslagsmál í ýmsum köflum í skýrslunni. Það er að sjálfsögðu gott. Ég tel hins vegar að ganga þurfi enn lengra og að skoða þurfi umhverfismálin í tengslum við hernaðarmálin. Ég beindi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um hvort fyrir lægi það kolefnisfótspor sem hlýst af loftrýmiseftirliti hér á Íslandi. Þær tölur eru ekki til. Tölur um mengun frá hernaði á heimsvísu eru hreinlega ekki til eða það er mjög erfitt að nálgast þær. Ég geri ekki þær kröfur hér að hæstv. ráðherra riggi þessu upp á augabragði þótt ég viti að hann sé vaskur maður, en ég tel mikilvægt að við tökum þessi mál með og hugsum um umhverfismálin heildstætt. Þar eru hernaðarmálin ekki undanskilin.