149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

biðlistar eftir bæklunaraðgerðum.

[15:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Um síðustu áramót lauk þriggja ára verkefni sem hefur gengið undir heitinu Biðlistaátak. Ég óskaði eftir því við embætti landlæknis að gerð yrði úttekt á því hver sá árangur er sem hefur náðst á þeim þremur árum til að við getum brugðist við með réttum hætti, þ.e. greint hvar flöskuhálsarnir í kerfinu eru ef þeir eru einhvers staðar. Þó hefur náðst verulegur árangur, bæði að því er varðar mjaðmaskipti og hnéskipti. Fyrir átakið var verið að gera 480 mjaðmaskiptaaðgerðir á ári en á lokaári átaksins var sú tala komin upp í 750 aðgerðir.

Hvað varðar hnéskipti vorum við að tala um ríflega 300 á ári sem fóru síðan upp í um 700 aðgerðir á ári. Árangurinn er því umtalsverður.

Við setjum okkur það markmið að enginn þurfi að bíða lengur en í 90 daga. Við setjum okkur það markmið í fimm ára fjármálaáætlun. Áður en átakið hófst biðu 20% í þrjá mánuði eða skemur eftir nýrri mjöðm. Núna bíða 35% í þrjá mánuði eða skemur. Hvað varðar hné voru það 12% en eru núna 30%. Það er að nást verulegur árangur.

Hins vegar er mikið áhyggjuefni hvað fjölgar mikið á biðlistunum. Það er augljóst að það verður að ná betur utan um biðlista í liðskiptum þannig að við höfum heildaryfirsýn yfir það hversu margir eru þar, hversu lengi þeir hafa þurft að bíða og hverjar ástæðurnar eru fyrir því.