149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Eins og hann nefndi sjálfur náði hann ekki að koma inn á allt sem hann vildi tala um í ræðu sinni þannig að ég ætla að spyrja hann út í atriði sem hann nefndi í fyrra andsvari. Ég vona að hann virði það við mig að ég er ekki beinlínis að vitna í ræðuna vegna þess að ég held að það sé mikilvægt að menn átti sig á þeim atriðum sem þingmaðurinn nefndi réttilega hér áðan, þ.e. reynsluna af því þegar við leyfðum bjórinn.

Eins og margir aðrir hv. þingmenn hef ég í gegnum tíðina drukkið bjór og það er ekkert um það að ræða lengur að við bökkum í tíma. En mig langar aðeins að heyra þingmanninn ræða það aðeins nánar af því að hann hefur nefnt tölur í því sambandi, um það hve mikið er líklegt að neyslan aukist ef frumvarpið verður að lögum. Mig langar að heyra hvort hann hafi meira fyrir sér í því en gáfulegt gisk, eins og krakkarnir myndu segja, því að þetta er býsna mikilvægt. Það er býsna mikilvægt að þingmenn átti sig á því hverjar mögulegar afleiðingar af lagasetningu eins og þessari gætu orðið og um leið hvaða áhrif slíkt kynni að hafa á lýðheilsu og almenna heilsu í landinu.