149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Það er akkúrat þetta persónufrelsi sem er sífellt verið að tala um og einstaklingsfrelsi og allt það, hvenær, hvernig og hvar megi neyta áfengis án þess að taka tillit til þeirra sem í kringum mann eru. Ég er á sömu línu og hv. þingmaður.

Þeir sem fara vel með áfengi eru ekkert sérstaklega að velta því fyrir sér hvort þeir fari vel með áfengi eða ekki. Þeir sem eru á jaðrinum velta því hins vegar mjög mikið fyrir sér og afgreiða það í kolli sínum þannig að þeir kássist ekki upp á einn eða neinn. En þetta á ekki bara við um þann sem neytir áfengisins. Þetta á auðvitað líka við um þá sem í kringum hann eru. Ég ítreka aftur að mér finnst mjög mikilvægt að við veltum þessu fyrir okkur út frá því sjónarhorni. Þetta snýst ekki bara um frelsi þess sem vill nota áfengi, heldur líka um frelsi þeirra sem í kringum viðkomandi eru. Það er ekki síður mikilvægt, og þá er ég ekki bara að tala um börn. Ég er líka að tala um fjölskyldur eða aðra þá sem í kringum mann eru. Við þekkjum alveg dæmi um fólk sem neytir áfengis í óhófi en mætir í vinnuna, er önugt og ekki alveg með sjálfu sér. Svo eru líka þeir sem flokkast ekki undir að vera alkóhólistar en eru samt með mánudagstimburmenn. Það kostar samfélagið gríðarlega peninga, fyrirtækin og heilbrigðisþjónustuna að einhverju leyti líka.