149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði því til í ræðustól nýverið að stjórnvöld eigi fullt í fangi með að ná þeim markmiðum í loftslagsmálum sem þau hafa þegar sett sér. Hann sagði enn fremur, með leyfi forseta:

„… ég held að við getum ekki gert mikið meira en við höfum einsett okkur í bili. Við eigum reyndar fullt í fangi með að ná þeim markmiðum sem við höfum þegar sett okkur …“

Þetta viðhorf hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur veldur mér vonbrigðum, því að við getum og þurfum að gera miklu meira. Sannarlega yrðu það ekki allt vinsælar ákvarðanir og eflaust erfiðar ákvarðanir. Staðreyndin er að við verðum og ég trúi því að við munum standa í framhaldinu uppi með betri heim. Hver gæti verið ósáttur við það?

Herra forseti. Ég var líklega fyrst til þess hér í þingsal að nota orðið neyðarástand um loftslagsmálin og hafa þó nokkrar þjóðir þegar lýst yfir neyðarástandi vegna ástands loftslagsmála í heiminum. Ég held að full ástæða sé til að Ísland geri það líka.

En það er ekki nóg að lýsa yfir neyðarástandi. Það þarf ákveðin viðbrögð líka og það þarf, eins og kemur til að mynda fram í ályktun Landverndar nýverið, að setja fram tímasettar áætlanir og markmið. Við þurfum að taka erfiðar ákvarðanir, eins og til að mynda að auka álögur á jarðefnaeldsneyti til að hvetja til minni notkunar. Við þurfum að auka jöfnuð og við þurfum að minnka kjötneyslu, svo fátt eitt sé nefnt.

Eins og fram hefur komið svo skýrt í þáttum RÚV, Hvað höfum við gert? sem ástæða er til að hrósa, þá er ástandið alvarlegt og við þurfum í sameiningu að hætta að nota jarðefnaeldsneyti. Við þurfum í sameiningu að breyta neysluháttum okkar og við þurfum í sameiningu að ráðast á vandann.