149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka þakkir mínar fyrir þessa þörfu umræðu. Eftir að hafa fengið nú að kynnast vel um stefnu Viðreisnar í málaflokknum þá langar mig að benda á að það gleður mig einstaklega mikið að finna það að hér er í raun á ferðinni þverpólitísk stefna. Við erum sammála um að það þarf að taka utan um málaflokkinn. Við erum sammála um að það þarf að hrinda úr vegi hindrunum og ég tel að við hljótum að geta líka verið sammála um að við verðum að gera stórátak í því að virða mannréttindi, virða nám sem einstaklingar hafa fengið í öðrum löndum.

Við erum bara akkúrat ekkert spes að þessu leyti til, Íslendingar hér heima. Ég veit ekki betur en að við förum sjálf til að sækja okkur aukna menntun og sérfræðimenntun til annarra landa. Auðvitað eigum við skilyrðislaust að sýna því fólki tilhlýðilega virðingu sem vill koma og leggja sitt af mörkum inn í okkar samfélag og hefur lagt sig fram um að eyða jafn mörgum árum ævi sinnar í það að afla sér menntunar og reyna að fóta sig til framtíðar í lífinu. Við eigum ekki að bjóða þessum einstaklingum upp á það að vera hér í láglaunastörfum, þá erum við í raun að sýna þeim fordóma sem við ættum að skammast okkar fyrir.