149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

staða innflytjenda í menntakerfinu.

[14:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka öllum þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Mér hefur þótt hún afar áhugaverð og margt gott sem hér er komið í nesti fyrir hæstv. ráðherra. Ég tek undir að það er mikilvægt að kortleggja stöðuna hjá börnum með annað móðurmál en íslensku og móta heildarstefnu þannig að hægt sé að bregðast við með sambærilegum hætti um allt land.

Ég er ánægð að heyra það að frá og með næsta hausti verði boðið upp á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli sem kjörsviði á meistarastigi í grunnskólakennaranámi og þá bæði fyrir starfandi og verðandi kennara. Ég tel að það sé mikilvægt. Það er líka mikilvægt að kennarar, sama hvar þeirra starfsstöð er, hafi aðgengi að samræmdum leiðarvísi um stuðning við móðurmál og ekki síður leiðir til að auka stuðning við nemendur af erlendum uppruna af því að við vitum auðvitað, eins og hér hefur komið fram, að læsi er undirstaða farsællar skólagöngu. Það er líka óumdeilt að færni í móðurmáli styrkir nemendur í námi, svo því sé haldið til haga.

Ég tek undir að kortlagning og eftirfylgni er mikilvæg þegar kemur að því hvernig best er að mæta nemendum og styðja. Eins og hér hefur komið fram er mikilvægt að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái markvissa kennslu í íslensku og njóti viðeigandi þjónustu og stuðnings á öllum skólastigum. Til að svo verði er nauðsynlegt að bæta læsi, bjóða tækifæri til að rækta og viðhalda eigin móðurmáli og bæta þjónustu við nemendur og fjölskyldur þeirra. Ég tek undir að það er ekki síður mikilvægt að styðja við foreldra í íslenskukennslu sem aftur endurspeglast þá í bættri færni nemenda. Of oft hefur maður séð og heyrt að nemendur eru jafnvel að túlka fyrir foreldra sína í foreldraviðtölum sem er algjörlega óásættanlegt. Staða foreldra hefur líka áhrif á börn og unglinga þegar kemur að atvinnu- og samfélagsþátttöku almennt.

Af því að hér hefur verið talað um öll skólastigin þá veit ég ekki alveg hvernig það er en mér finnst t.d. að allir framhaldsskólar ættu að setja sér móttökuáætlanir fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku til þess að mæta þessum hópi enn betur en verið hefur og kannski ætti auðvitað öll skólastig að gera svo.

Við þurfum líka að bæta tölfræðigreiningar á svo mörgum sviðum og sá hópur sem við höfum rætt hér er afar mikilvægur. Það er þó ljóst að árgangsbrotthvarf innflytjenda er hærra en annarra nemenda og við því þurfum við að bregðast. Ég minni aftur á og tek undir það sem hér hefur verið sagt að við þurfum að styðja þá innflytjendur sem eru með menntun úr heimalandinu eða annars staðar frá og er ekki að fullu viðurkennd hér þannig að þeir geti nýtt og samfélagið notið þeirra starfskrafta miðað við menntun og færni.