149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áttað mig á því að hv. þingmaður er mjög ruglaður í þessu máli út af þessum vikufjölda. Hún hefur ítrekað talað um það. Ég hef hins vegar farið yfir það. Ég fór yfir það í flutningsræðu minni hvernig núgildandi lagaumhverfi er, hvernig núgildandi framkvæmd er. Hún er sú að alla jafna geta konur farið í þungunarrof til 16. viku miðað við þessi skilyrði um annaðhvort félagslegar aðstæður eða læknisfræðilegar, en eftir það þurfi að koma til samþykki nefndar og það byggist á þremur undantekningum. Undantekningarnar eru þær að fóstur sé talið alvarlega fatlað, vanskapað, eins og það er orðað í lögunum okkar frá 1975, eða að lífi og heilsu móður sé stefnt í alvarlega hættu af áframhaldandi meðgöngu, eða að fóstur teljist ekki lífvænlegt til frambúðar. Þetta eru þær þrjár undantekningar sem eru í núgildandi lögum.

Eins og framkvæmdin er núna þá telst alvarleg fötlun fósturs vera undanþága fram að 22. viku og er heimilt að framkvæma þungunarrof á þeim grunni fram að 22. viku. Þannig er framkvæmdin eins og hún er núna en til þess þarf nefnd og mikið ferli. Inni í því felast ákveðin mismununarskilaboð til fatlaðra einstaklinga. Þetta má ekki nema ef um fatlað fóstur er að ræða.

Það sem löggjafinn er að reyna að gera hér er að fjarlægja undanþáguákvæði úr lögum sem segir að undanþágan frá hinni almennu reglu, að ekki megi lengur fara í þungunarrof, sé alvarleg fötlun fósturs. Það er hin beina mismunun í lögunum sem er verið að fjarlægja núna. En á sama tíma viljum við ekki neyða konur (Forseti hringir.) til að ganga með alvarlega fötluð börn treysti þær sér ekki til þess. Ég vona að hv. þingmaður vilji ekki gera eitthvað slíkt. En því miður held ég að sannleikurinn sé annar.