149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir svarið. Hún er gjörn á að gera mönnum upp skoðanir eins og berlega kemur í ljós. Ég spurði einfaldrar spurningar: Hvar kemur það fram í núgildandi löggjöf að um sé að ræða 22 vikur? Ég bara get ekki fundið það þó að ég sé læs. Og það eina ruglingslega, ég er líka læs sem lögfræðingur og ég skil vel innihald 10. gr. þó að hv. þingmaður sé að reyna að sneiða hana ofan í mig og láta eins og ég viti hvorki haus né sporð á henni, sem stendur í mér akkúrat núna er ræða hv. þingmanns. Þess vegna spyr ég aftur: Hvar, hv. þingmaður, er að finna þessa ítrekuðu tilvitnun í þessar 22 vikur í núgildandi löggjöf? Getur hv. þingmaður vísað mér í þá grein í núgildandi löggjöf eins og hún er að reyna að mata ofan í mig 10. gr. löggjafarinnar?