149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á uppskiptingu á mælendaskránni. Þegar sú sem hér stendur var útvarpskona var góður yfirmaður þar, Broddi Broddason, sem kenndi mér að hlaupa aldrei í útsendingu né eitthvert annað þar sem ég þyrfti að ræða mál og þá reglu hef ég notað hér.

Við ræðum alvarlegt mál sem er fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja. Eins og frú forseti benti á er komið fram álit minni hluta utanríkismálanefndar sem undirrituð er á ásamt hv. þm. Smára McCarthy. Ég ætla mér að leyfa mér að renna yfir þetta nefndarálit okkar. Eins og fram kom í máli þeirra sem á undan mér hafa talað þá hafa átt sér stað mikil mannréttindabrot á Filippseyjum sem hafa orðið til þess að margir hafa staldrað við þegar kemur að fullgildingu fríverslunarsamninga við þá þjóð.

Þingsályktunartillaga um fullgildingu fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna við Filippseyjar er nú lögð fram í þriðja sinn á Alþingi. Ástæða þess að hún hefur ekki hlotið brautargengi er, eins og ég minntist á áðan, hræðilegt ástand í mannréttindamálum á Filippseyjum í kjölfar þess að Rodrigo Duterte var kjörinn forseti landsins þann 30. júní 2016. Aðeins nokkrum vikum eftir að undirritað var samkomulag milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja um að hefja undirbúning að fullgildingu fríverslunarsamningsins var Duterte kjörinn forseti. Ísland er að fullgilda hér glænýjan samning við ríki þrátt fyrir að forystumenn þess hafi brotið gróflega gegn mannréttindum stuttu eftir að sest var við samningaborðið. EFTA-ríkin voru því í kjöraðstæðum til að stöðva vinnu við samningsgerðina á meðan beðið væri eftir að ástand í mannréttindamálum myndi batna.

Ýmis mannréttindasamtök og stofnanir sem starfa á sviði mannréttinda hafa harðlega gagnrýnt ástand mannréttindamála í forsetatíð Duterte og ef tæpt er á athugasemdum þeirra þá er nú svo komið að samkvæmt nýjustu opinberu tölum á Filippseyjum hafa 5.000 manns verið drepnir af lögreglu án dóms og laga, sérstaklega á 16 mánaða tímabili, frá júlí 2016 til nóvember 2017, að fyrirskipan Duterte forseta sem hvatti einfaldlega til morða á götum úti á eiturlyfjaneytendum og eiturlyfjasölum. Mannréttindasamtök hafa hins vegar áætlað að fjöldi fórnarlamba þessarar pólitísku stefnu sé á bilinu 12.000–20.000 samkvæmt nýrri grein í Guardian, frá 3. apríl 2019, sem nefnist „Philippines court orders release of police files on thousands of drug-war deaths“, með leyfi forseta.

Aðeins einum og hálfum mánuði eftir að Duterte tók við forsetaembætti á Filippseyjum skoruðu Sameinuðu þjóðirnar og sérfræðingar þeirra í mannréttindamálum á stjórnvöld á Filippseyjum að virða laga- og réttarkerfi í landinu og sjá til þess að þeir sem höfðu framið brot gegn fíkniefnalöggjöf landsins hlytu réttláta meðferð fyrir filippseyskum dómstólum.

Það eru tvö mál í farvegi hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum í Haag vegna fyrrgreinda aftaka án dóms og laga. Duterte brást við með því að draga Filippseyjar einfaldlega úr dómstólnum sem setur réttindi borgara landsins í verulegt uppnám. Þetta hefur gerst á undanförnum mánuðum. Til viðbótar við aftökur án dóms og laga á borgurum Filippseyja í forsetatíð Duterte má nefna að virt mannréttindasamtök hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við önnur grafalvarleg mannréttindabrot sem eiga sér stað á Filippseyjum. Má þar nefna að stjórnvöld hafa staðið fyrir árásum á frumbyggja landsins í tíð Duterte. Þá hafa mannréttindabrot verið framin á börnum en samtökin Human Rights Watch vöktu m.a. athygli á barnaþrælkun í filippseyskum gullnámum. Loks hafa baráttusamtök fyrir réttindum samkynhneigðs fólks mótmælt harðlega mismunun gagnvart samkynhneigðum á Filippseyjum og öðrum sem hefur verið mismunað vegna kynhneigðar sinnar eða kyngervis og aðgangur þeirra að menntun og önnur réttindi skert í tíð Duterte. Hatursglæpum gegn samkynhneigðu fólki hefur fjölgað frá því Duterte tók við völdum og tíðni morða á transfólki er sú allra hæsta í löndum Suðaustur-Asíu.

Það skýtur því verulega skökku við að fullgilda þennan fríverslunarsamning nú þegar ástand í mannréttindamálum á Filippseyjum er jafn slæmt og raun ber vitni. Í raun má segja að það sé óskiljanlegt að leggja svo mikla áherslu á fullgildingu fríverslunarsamnings við landið á meðan Duterte er við völd og sýnir engin merki þess að milda stjórnarhætti sína.

Minni hlutinn bendir á að þrátt fyrir að utanríkisráðherra Íslands hafi sem betur fer nýtt opinber tækifæri til að gagnrýna stöðu mannréttindamála á Filippseyjum þá hljóti það að skjóta skökku við að á sama tíma og Ísland á dýrmætt sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna ætli það sér að fullgilda fríverslunarsamning við ríki sem stýrt er af mannréttindabrjóti sem utanríkisráðherra hefur gagnrýnt opinberlega. Sömuleiðis má vekja athygli á því að það getur varla verið til þess fallið að auka trúverðugleika þjóðar með fulltrúa í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna að fullgilda fríverslunarsamning við land sem brýtur gróflega á réttindum barna, hefur ekki tekist að uppræta barnaþrælkun og lækkaði nýverið sakhæfisaldur ungmenna úr 15 árum í 12 ár þrátt fyrir mótmæli mannréttindasamtaka.

Því leggst, herra forseti, minni hlutinn eindregið gegn því að fríverslunarsamningur við Filippseyjar verði fullgiltur við núverandi stöðu mannréttindamála og telur einboðið að Ísland bíði með fullgildinguna þar til ástandið batni eða skáni til muna.

Það eru sem betur fer fordæmi fyrir því að Alþingi Íslendinga hafi ítrekað hafnað samþykkt á framlagningu þingsályktunartillögu um fullgildingu fríverslunarsamnings vegna bágs ástands mannréttindamála í viðkomandi samningsríki. Það gerðist með fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna við Kólumbíu. Þingsályktunartillaga þess efnis var lögð fram í fjórgang áður en hún hlaut samþykki Alþingis. Tillagan var að lokum samþykkt á 143. löggjafarþingi árið 2014 eftir að kólumbísk stjórnvöld höfðu fullyrt að 720 einstaklingum sem voru taldir í hættu hefði verið veitt lögregluvernd og umsóknir tuga þúsunda fórnarlamba átakanna um landrými væru í vinnslu. Þá höfðu kólumbísk stjórnvöld komið sér á þann stað að beita sér fyrir alvarlegum friðarviðræðum við kólumbísku skæruliðasamtökin FARC, bæði í Ósló og Havana, með þátttöku kúbverskra og norskra stjórnvalda og skýrsla mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna sýndi að jákvæð teikn væru á lofti í mannréttindamálum og friðarviðræðum í Kólumbíu.

Ein helsta ástæða þess að tillaga um fríverslunarsamning við Kólumbíu var í þrígang ekki samþykkt af Alþingi var m.a. hörð gagnrýni launþegahreyfinganna á afar bágt ástand mannréttindamála og ofsóknir sem verkalýðsfélög í Kólumbíu máttu sæta af hálfu ýmissa afla í landinu. Launþegahreyfingar í Noregi og á Íslandi höfðu á vettvangi EFTA hvatt til þess að samningur við Kólumbíu yrði ekki gerður nema tekin væru af öll tvímæli um skyldur landsins til að virða mannréttindi og réttindi launafólks til að stofna og starfrækja verkalýðsfélög. Alþýðusamband Íslands ítrekaði andstöðu sína við fríverslunarsamningsgerð og fullgildingu hans við Kólumbíu, bæði í umsögn til utanríkismálanefndar og á fundi nefndarinnar.

Hið sama hefur Alþýðusamband Íslands gert um þingsályktunartillögu um fullgildingu fríverslunarsamnings við Filippseyjar. Samtökin lýsa yfir verulegum efasemdum um fullgildingu fríverslunarsamningsins vegna stöðu mannréttindamála þar í landi og mæla ekki með samþykkt tillögunnar. Í umsögn Amnesty International á Íslandi er jafnframt bent á að rannsóknir Amnesty International sýni að víðtæk mannréttindabrot séu framin af hálfu stjórnvalda á Filippseyjum og í nafni stjórnvalda þeirra.

Ef við víkjum aðeins að fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna þá er að sjálfsögðu rétt að geta þess, eins og fram kom í máli hv. þm. Loga Einarssonar, að í formálsorðum þeirra er áréttað að samningsaðilar skuldbindi sig til þess að virða lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar samkvæmt þjóðarétti, þar með taldar meginreglur sem settar eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þetta er vel en hefur líka verið gagnrýnt af hálfu m.a. íslenskra þingmanna sem telja að þessi formálsorð séu ekki nógu sterk og þeim hafi ekki verið fylgt nógu vel eftir og hafa bent á að það þurfi að gera. Það verður að teljast nokkuð holur hljómur í því af hálfu Íslands að fullgilda fríverslunarsamning við ríki sem virðir ekki einmitt það sem fram kemur í formálsorðunum, mannréttindi og mannfrelsi. Staða mannréttindamála á Filippseyjum er svo alvarleg að þegar við gildistöku samningsins er fyrirséð að mannréttindaákvæði samningsins verði þverbrotið. Ástæða er því til að velta upp gildi annarra ákvæða samningsins komi til deilna um þau, ekki síst þar sem Filippseyjar hafa þegar sagt sig frá Alþjóðlega sakamáladómstólnum til að komast hjá réttmætri úrlausn dómstóla. Í ljósi þessa er varla hægt að líta á Filippseyjar sem trúverðugan samningsaðila á meðan Duterte er við völd.

Minni hlutinn sem stendur að þessu áliti áréttar líka að ef ástand mála batnar, eins og gerðist í tilviki Kólumbíu og hins hræðilega ástands sem þar ríkti, þá styðji hann að sjálfsögðu að fríverslunarsamningur við Filippseyjar verði fullgiltur. Við teljum hins vegar ekki siðferðilega rétt að fullgilda fríverslunarsamning við Filippseyjar fyrr en raunverulegar umbætur verði á mannréttindum og mannfrelsi íbúa Filippseyja.