149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[20:52]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi það sem hægt væri að gera á vettvangi EFTA. Og eins varðandi hvernig þessi mannréttindaákvæði eru að þróast vil ég nefna nokkur atriði. Fyrst er að þessi samningur var auðvitað kláraður og áritaður, ekki undirritaður heldur áritaður, fyrir kjör Dutertes. Það skiptir náttúrlega heilmiklu máli varðandi forsöguna.

Á þeim tíma og enn í dag er verið að notast við staðlaðan formálstexta um mannréttindi og þetta er formálstexti sem því miður hefur ekki haft mjög mikið vægi. Þarna væri hægt að bæta úr. Nú er verið að vinna nýjan kafla um sjálfbæra þróun sem á að nota í fríverslunarsamningum EFTA og inn í framtíðina. Ég hef sett það á dagskrá nefndarinnar í Liechtenstein nú í sumar að rætt verði út frá raunveruleikanum hvað skuli gera. Að vísu eru mjög misjafnar skoðanir meðal EFTA-ríkjanna um hversu mikla áherslu eigi að leggja á mannréttindamál. Sumir vilja bara ekkert vera að blanda þeim saman við viðskipti, en þarna er alla vega eitthvað sem hægt er að byggja á.

Það er hægt að nota þennan nýja kafla um sjálfbæra þróun sem undirstöðu fyrir opnari og betri umræðu. Það voru líka umræður í utanríkismálanefnd um hvort hugsanlega væri hægt að senda einhvers konar bréf til framkvæmdastjórnar EFTA og óska eftir því að þetta yrði tekið upp hjá sameiginlegum nefndum gagnvart þeim ríkjum sem við höfum áhyggjur af. Það hefur ekkert hreyfst áfram í því en ég vona að utanríkismálanefnd geti komið sér saman um að gera það. Það væri afskaplega gagnlegt.