149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

119. mál
[23:37]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að leggja fram þessa tillögu hér og mæla fyrir henni. Það er ekki í fyrsta skipti sem hún hefur gert það, enda minntist hv. þingmaður í ræðu sinni á að þessi tillaga sem við ræðum væri nú flutt í sjötta sinn. Hún hefur verið flutt áður en ekki verið afgreidd en er nú endurflutt óbreytt með uppfærðri greinargerð hvað varðar tölur.

Þó að nafn mitt sé ekki á þessari þingsályktunartillögu styð ég hana að sjálfsögðu af heilum hug og vonast til þess að Alþingi Íslendinga afgreiði hana sem fullburða þingsályktunartillögu því að við höfum beðið lengi eftir því að hún sé afgreidd.

Eins og fyrsti flutningsmaður, hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, rakti hér í sinni ræðu er ástæðan fyrir þessari þingsályktunartillögu að sjálfsögðu sú að hluti útflutningsvara frá Ísrael á uppruna sinn ekki að rekja til svæða innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Ísraelsríkis heldur til ólöglegra landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu. Núverandi stjórnvöld í Ísrael virðast fylgja þeirri stefnu að taka aukið land og vatnsból frá Palestínumönnum undir byggðir landnema. Þessi deila er náttúrlega nánast ævarandi og við sáum hana blossa upp með hræðilegum hætti núna fyrir nokkrum dögum þegar hörð átök brutust út á milli landnema og Palestínumanna með hörmulegum afleiðingum. Slík tilvik koma alltaf upp reglulega með mannfalli á saklausum borgurum, eins og við þekkjum vel.

Eins og fram kemur í greinargerðinni með þessari þingsályktunartillögu hefur Ísland aldrei, ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar, viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta Ísraelsríkis og því ætti ekki að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland þeirra vara sem eru framleiddar í landnemabyggðunum. Það leiðir af sjálfu.

Með þeim ráðstöfunum sem þessi þingsályktunartillaga kallar eftir yrði íslenskum neytendum gert kleift að taka sjálfir ákvörðun um hvort þeir vilji styðja efnahagslíf á ólöglegum landnemabyggðum á hernumdum svæðum í Palestínu.

Líkt og fyrsti flutningsmaður, Steinunn Þóra Árnadóttir, minntist á hefur þessi þingsályktunartillaga hlotið stuðning frá ekki ómerkari samtökum en Alþýðusambandi Íslands sem hefur stutt þessa þingsályktunartillögu í hvert einasta skipti sem hún hefur verið lögð fram. Alþýðusamband Íslands hefur um áratugaskeið fordæmt hernám Ísraels í Palestínu og stutt við baráttu alþjóðasambands verkalýðsfélaga fyrir réttindum palestínsks verkafólks og andstöðu við hið ólögmæta hernám. Að sjálfsögðu er þetta líka hluti af því að Palestínumenn geti búið sér til lífsviðurværi og fengið verð fyrir sína vöru, það sé ekki verið að ræna því, auk allra mannréttindabrotanna sem eiga sér stað af hálfu Ísraelsríkis.

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu en ég vildi líka í þessu samhengi minna á afrek okkar Íslendinga þegar kemur að því að viðurkenna Palestínu sem fullvalda, sjálfstætt ríki. Þessi þingsályktunartillaga er fullkomlega í takti við stefnu íslenskra stjórnvalda þegar kemur að þeirri viðurkenningu.

Það er kannski rétt að geta þess að Ísland hefur um langt árabil stutt sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstætt ríki Palestínumanna, lagt áherslu á friðsamlega lausn deilumála Palestínumanna og Ísraela og talið brýnt að alþjóðasamfélagið knýi fram samkomulag deiluaðila. Íslensk stjórnvöld hafa ávallt stutt að deilumál Palestínumanna og Ísraels verði til lykta leidd í samningaviðræðum og hafa stutt friðarferli sem miðar að þeirri niðurstöðu.

Líkt og hv. þingmaður minntist á skoðun suður-afríska ráðherrans sem hefur svarað því nokkuð vel að þessi þingsályktunartillaga og aðrar af sama meiði eigi ekki að draga úr viðskiptum Ísraels heldur sé verið að tryggja að vörur, upprunavottun eða upprunamerkingar vara séu réttar. Það er líka í því samhengi rétt að minna á að stjórnvöld hér á landi hafa í orði og verki lýst fullum stuðningi við öryggi og tilverurétt Ísraelsríkis. Alþingi samþykkti þannig 18. maí 1989 þingsályktun um deilur Palestínumanna og Ísraels þar sem segir m.a. að Alþingi leggi áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis.

Þannig að það er rétt að halda því til haga að þetta er kannski ekki sú ógnun sem látið hefur verið að liggja, að stjórnvöld á Íslandi séu að draga úr viðskiptum Ísraels, heldur er þvert á móti verið að tryggja að uppruni vara sé skýr og öllum neytendum ljóst hvaðan þær koma og þar með líka tryggja Palestínumönnum það afkomuöryggi sem þeir eiga skilið; og enn fremur að tryggja að neytendur geti valið með upplýstum hætti þær vörur sem þeir telja til þess fallnar að styðja við réttbæra framleiðendur varanna.

Líkt og ég sagði í upphafi vil ég þakka flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu fyrir að leggja hana fram hér í enn eitt skiptið og vona að Alþingi beri gæfu til að samþykkja þessa þingsályktun.