149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

tilkynning.

[17:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt að það hafi verið sátt um þessi mál hingað til. Þess vegna er frumvarpið komið fram. Ég ber fulla virðingu fyrir því að fólki finnist málefnið vera viðkvæmt. Það hefur fengið hins vegar mjög mikla umræðu og það er alveg augljóst að á einhverjum tímapunkti þarf að taka ákvörðun. Það hefur ekkert nýtt komið fram sem krefst þess að fólk þurfi meiri tíma. Fólk er ósammála um þetta og stundum er það bara þannig. Við verðum samt að taka ákvörðunina.

Ég er oftast með þeim fyrri til að koma hingað upp og sýna því stuðning að fólk þurfi meiri tíma til að vinna einhver mál. Við gerum stundum lítið úr því að fólk þurfi tíma. Ég tel ekki að það sé tilfellið nú. Ég held að fólk vilji greiða atkvæði um þetta mál seinna vegna þess að því finnst eðlilega óþægilegt að greiða atkvæði um það, sem ég hef fullan skilning á og ber fulla virðingu fyrir. En mér finnst það ekki vera næg rök til að fresta atkvæðagreiðslu um málið. Þess vegna greiði ég atkvæði gegn því að gera það.