149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:24]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get kannski ekki tekið undir það með þingmanninum að skautað sé sérstaklega léttilega fram hjá þarna, hvorki í stefnunni sjálfri né nefndarálitinu. Ég deili hins vegar þeim áhyggjum með hv. þingmanni að staða heilbrigðisþjónustu úti á landi er allt önnur en á höfuðborgarsvæðinu. Það er afar mikilvægt verkefni að finna leiðir til að bregðast við og tryggja að menn hafi aðgang að þjónustu þegar þeir þurfa á henni að halda.

Ég tel að einn af þeim þáttum sem þar geta skipt máli sé að skilgreina þjónustuna, skilgreina þjónustustigin. Efling heilsugæslunnar sem í nútímaheilbrigðisþjónustu verður alltaf sterkari og sterkari, sérstaklega fyrir dreifðar byggðir, skiptir þar höfuðmáli. Þar eru einmitt heilbrigðisyfirvöld núna á, við skulum segja, mjög glæsilegri vegferð að gera ansi marga hluti til að reyna að efla þá þjónustu. Ég nefndi í ræðu minni sálfræðiþjónustu í heimilislækningum. Ég nefndi Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar og ég nefndi þann aukna fjölda sem er núna að sækja sér menntun í heimilislækningum. Auðvitað er alltaf hægt að halda áfram að gera betur. Ég hef þá trú að hæstv. heilbrigðisráðherra meini það sem hún hefur ítrekað sagt, að þessi þjónustuþáttur sé einn sá mikilvægasti í kerfinu, sérstaklega með tilliti til landsbyggðarinnar, og þess vegna er áherslan í stefnunni þar.