149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:00]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski viðbúið að við stöldrum dálítið við sæstreng. Í nefndaráliti minni hlutans er fjallað aðeins um að tilgangur þriðja orkupakkans sé að stuðla að verkefnum sem skilgreind eru sem forgangsverkefni við tengingu raforkukerfa álfunnar, tengingu við Ísland, þ.e. IceLink.

Við erum ekki á þessum lista nema vegna þess að við höfðum frumkvæði að því. Það voru Landsvirkjun og Landsnet sem óskuðu eftir því að fá að vera á þessum lista. Og viti menn, í janúar 2015 samþykkti ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar beiðni þessara fyrirtækja um að sækja um að fá að vera á þessum lista.

Þetta var gert með samþykkt minnisblaðs frá þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra og var samþykkt í ríkisstjórninni, en þó með þeim fyrirvara að í því fælist engin frekari skuldbinding af hálfu Íslands að óska eftir skráningu á þennan lista, sem hv. framsögumaður gerir (Forseti hringir.) nú tortryggilegan. Þannig að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur komið með beinum og skýrum hætti að sæstreng.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)