149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda. Ef yfirferð nefnda verður mjög löng — ég tek sem dæmi síðustu samgönguáætlun sem mér fannst ganga úr hófi fram, þ.e. of margir gestir o.s.frv. — verðum við að nota tímann til að skoða mótrök og meðrök og þetta eru töluvert miklar endurtekningar. Í því ljósi þá tel ég að nefndin hafi komist ágætlega frá hlutverki sínu.

Hvað afsöl snertir, afsal á einhverju, þá vorum við auðvitað að afsala okkur því að hafa eingöngu innlendar reglur um raforkueftirlit. Við vorum að taka við alþjóðlegum reglum um raforkueftirlit. Þegar menn segja að það sé ekkert í þessum pakka, þá er það rangt. Það er þetta í þessum pakka. Við erum að breyta aðeins reglum um það hvernig eftirliti er háttað. Bæði þarf að aðskilja ákveðinn hluta frá stofnun sem hefur fullt af öðrum hlutverkum og haga reglum eftir þessum evrópska staðli, skulum við segja. Það snýst þá líka um neytendaverndina, það er verið að víkka hana út, gera fólki auðveldara að skipta um orkufyrirtæki, heimadreififyrirtæki o.s.frv. Það er það sem þetta gengur út á.

Að ásælast orku? Nei, ég get ekki fundið neitt í því að svo sé, að í Brussel sé verið að ásælast orku. Auðvitað hafa Evrópulöndin hug á því að hafa sem mest af endurnýjanlegri orku, en það mun aldrei gerast í okkar tilviki nema með okkar samþykki.