149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir tilurð ACER og tilgangi. Ég veit líka hvað þriðji orkupakkinn felur í sér. En málið er nákvæmlega þetta: Eru það ekki erlend afskipti að innleiða þriðja orkupakkann, þ.e. ef hann tekur þá yfir höfuð gildi út af öllum þessum stjórnskipulegum fyrirvörum? Eru það ekki erlend afskipti að við skulum þurfa að taka Orkustofnun og gera hana algjörlega sjálfstæða undan öllu boðvaldi ráðherra? Eru það ekki erlend afskipti? Eru það ekki erlend afskipti þegar við fáum hér tilskipanir og alls konar reglugerðir til að innleiða? Eru það ekki erlend afskipti?

Það sem ég hef verið að reyna að leggja áherslu á í minni ræðu er hið heildstæða mat. Ég geri mér vel grein fyrir því að ACER er til þess að fjalla um álitaefni á milli aðila sem eru inni á hinum sameiginlega orkumarkaði. Ég geri mér grein fyrir því að það er hinn eiginlegi tilgangur. Það er líka mjög athyglisvert, virðulegi forseti, að hér skuli menn vera flissandi og pískrandi, það er gaman að maður skuli vera svolítið skemmtilegur í pontunni og vekja einhverja gleði. En það eru erlend afskipti alla leið. Það sem ég er að segja hér og nú, og hef lagt aðaláherslu á, er hið heildstæða mat sem mér finnst hafa skort. Það er meginmarkmiðið með innleiðingu orkupakkanna, það er hvert verið er að stefna. Við göngum alltaf lengra, og það hafa allir fræðimenn sagt, við erum alltaf að dýpka samvinnuna inn á þennan markað. Það sagði hver einasti fræðimaður og það vita þeir sem sátu þessa fundi. Við erum alltaf að dýpka frekar samskipti okkar inn á þennan markað, burt séð frá því að við erum náttúrlega ekki komin með sæstreng.