149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:07]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það er akkúrat tíminn núna. Ég held að við séum sammála um að nú er tími til þess að setja okkar fyrirvara á það sem verið er að gera og fá sameiginlegu EES-nefndina til liðs við okkur, það er þrátt fyrir allt sá varnagli sem sleginn er inn í samninginn, að það að vísa málum þangað sé leið til að leysa ágreining. Angela Merkel hefur haldið því fram að það sé nauðsynlegt að hún fái til sín í Evrópu hreina orku. Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Hvert er eiginlega markmiðið með innleiðingu á öllum þessum pökkum? Við vitum að Evrópa er með 70% orku frá óumhverfisvænum orkugjöfum. Þá velti ég fyrir mér: Á hvaða leið erum við með því að innleiða alla þessa pakka?