149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

um fundarstjórn.

[20:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ef fólk hælir sér um of fær það það gjarnan í andlitið aftur. Mig langar að rifja upp orð forseta þingsins í vetur þegar hann hrósaði framgangi mála, þetta kæmi allt svo þétt og skipulega frá stjórninni, fleiri mál væru afgreidd en vanalega. Mig langar að taka undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson þegar hún bendir á að þetta mál er búið að þvælast fyrir ríkisstjórninni í fleiri mánuði. Það hefði fyrir löngu verið hægt að koma því inn, t.d. án þessara fyrirvara og með því einfaldað málið.

Nú get ég ekki betur séð en að stjórnarflokkarnir séu að fá þetta dálítið í andlitið og þeir bera á endanum ábyrgð á því ef allt er komið í hönk og við náum ekki að afgreiða merkileg mál fram á vorið.