149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og sagnfræðilegt ívaf sem var svo sem athyglisvert að hlusta á. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í álitsgerð Skúla Magnússonar. Í álitsgerðinni segir:

„Á síðustu árum hafa hins vegar komið upp hugmyndir um lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlands og hefur áætlun um slíkan streng (undir heitinu „IceLink“) verið færð á verkefnalista kerfisþróunaráætlunar Evrópusambandsins, væntanlega að frumkvæði Landsnets hf.

Þótt hér sé ekki um að ræða bindandi ákvörðun og alls óvíst sé hvort téður strengur verði að veruleika (svo og hvort Bretland yrði aðildarríki Evrópusambandsins þegar og ef hann yrði lagður) þykir rétt að miða umfjöllun við að raunhæft sé að íslenskur orkumarkaður verði tengdur markaði Evrópusambandsins og þeim heimildum sem leiða af 7., 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 713/2009 kunni þar af leiðandi að verða beitt gagnvart íslenskum hagsmunum.“

Mér þætti fróðlegt að fá álit hv. þingmanns á þessu áliti og þá sérstaklega því sem segir hér: „… kunni að verða beitt gagnvart íslenskum hagsmunum“.