149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir með hv. þm. Loga Má Einarssyni. Það er sannarlega kominn tími til að þessum fundi fari að ljúka, hið bráðasta myndi ég vilja segja. Fyrir því eru mjög góðar og gildar ástæður. Hv. þingmaður nefndi nokkrar. Það er mikið fundastarf fram undan, geri ég ráð fyrir, hjá öllum þingmönnum. Það er boðaður fundur í atvinnuveganefnd klukkan hálf níu þar sem eru mjög stór og mikilvæg mál á dagskrá.

Ég vil, eins og ég gerði fyrr í kvöld í umræðum um fundarstjórn forseta, sömuleiðis geta þess að það komu fram mjög mikilvægar upplýsingar í dag varðandi þetta orkupakkamál sem lúta að hinum lagalega fyrirvara. Það er alveg nauðsynlegt að tóm gefist áður en þessari umræðu er lokið til að ráðgast við lögfróða menn um það atriði.