149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurninguna. Varðandi fyrirvarana þá er spaugilegt, herra forseti, að við erum að velta fyrir okkur hvar þennan lagalega fyrirvara sé að finna og það koma fjórir til greina. Ég ætla að nefna einn og lesa aðeins upp úr honum. Það er fyrirvarinn sem kom á fundi hæstv. utanríkisráðherra og framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins 20. mars 2019, Miguels Arias Cañetes. Þar segir:

„Raforkukerfi Íslands er eins og stendur einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Í því ljósi hefði stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar.“

Er þetta lagalegi fyrirvarinn? Ég sé það ekki. Hvað þýðir þetta? Ísland er eyja, það er enginn strengur hingað. Er þetta lagalegi fyrirvarinn? Ef svo er endurtek ég það sem ég sagði áðan, þá er keisarinn í engum fötum. Þetta er bara staðreynd. Þetta er enginn fyrirvari.

Hv. þingmaður nefndi líka hversu margir fyrirvararnir væru. Þá vil ég nefna að það er ekki bara spaugilegt hversu margir fyrirvararnir eru sem við veltum fyrir okkur hvað stjórnarliðarnir meini með, hver þeirra er sá sem þeir eru alltaf að tala um, það er líka spaugilegt ef þetta kemur upp og við þurfum að segja: Við erum með lagalegan fyrirvara, þetta gengur ekki. Það er spaugilegt vegna þess að svona fyrirvarar eins og við erum búnir að lesa hér upp eru spaugilegir í sjálfu sér.