149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og oft í þessari umræðu koma upp svo mörg atriði að maður nær í raun ekki að gera þeim öllum skil í andsvari. En hv. þingmaður vakti máls á því, sem ég hef reyndar tekið eftir, að þessi sameiginlega yfirlýsing hæstv. utanríkisráðherra og þessa Miguels — hvað hann heitir sá ágæti maður, þessi kommissar — er nánast eins og það sem kom síðar frá sameiginlegu EES-nefndinni, mjög passað upp á orðalagið, sem sýnir okkur að þetta er orðalag sem búið er að reikna út. Eins og hv. þingmaður hefur bent á geri ég ráð fyrir að það sé fyrst og fremst hugsað þannig að menn geti komist frá því síðar. En það sem hv. þingmaður benti á — og ég verð nú bara að játa á mig, virðulegur forseti, að ég hafði ekki gefið því nógu mikinn gaum — eru lokaorðin í því sem kom frá sameiginlegu EES-nefndinni, sem er eiginlega ekki hægt að túlka öðruvísi en sem svo að mönnum beri að gera þetta til að sameiginlegi markaðurinn virki. Og hver er þá gagnályktunin? Jú, þetta skiptir verulegu máli og það er ekkert að marka það sem haldið hefur verið fram um að þetta hafi engin áhrif.

Spurningin er þá þessi: Hverja skiptir þetta svona miklu máli? Hefur hv. þingmaður svör við því eða getur hann hugsanlega getið sér til um það hverra hagur það er fyrst og fremst að þetta fari hér í gegn? Helst auðvitað, samkvæmt vilja virðulegs forseta, um miðja nótt, þegar sem fæstir sjá til.