149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

umræðuhefð á þingi.

[15:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn um mjög stórt mál. Hann sagði í ræðu sinni að engum valdhafa fyndist hann sjálfur fara illa með völd. Ég vænti þess að hann sé þá líka að tala um mig og sjálfan sig, því að öll erum við valdhafar sem sitjum í þessum sal, ekki satt? Ef við gefum okkur að þær forsendur séu réttar komumst við líklega ekki mjög langt áfram í þessu máli.

Hv. þingmaður segir að sporin hræði. Fulltrúalýðræðið felur í sér að fólki er sýnt ákveðið traust. Það er kosið til ákveðinna verka og það verður kannski ekki kosið aftur næst þegar kosið verður af því að fólk hefur glatað trausti á það og trúnaði. Eigi að síður er þetta það kerfi sem við höfum og er forsenda þess sem við getum kallað hið frjálslynda lýðræði. Við erum með tilteknar stofnanir og tryggjum að stofnanauppbyggingin sé sanngjörn og réttlát, að við séum með dómstóla sem séu sanngjarnir og réttlátir, séum með fulltrúasamkundu sem er settur eðlilegur rammi.

Sú umræða sem hv. þingmaður vísar nú í, sem hann segir að snúist um vantraust á fulltrúalýðræðinu, er, held ég, angi af miklu stærra máli sem er umræða sem er í gangi, bæði hér og annars staðar í Evrópu og vestan hafs, sem er að grafa undan trausti á stofnanir almennt í nafni þess að stjórnmálamenn tali fyrir þjóðina, sem þeir gera þó ekki endilega því að væntanlega tala þeir bara fyrir hluta hennar, og snýst um að skapa aðgreiningu í samfélaginu milli þeirra sem telja sig þjóðina og hinna.

Þetta er auðvitað risastórt mál og við getum kallað það popúlisma. En popúlismi er auðvitað ekki eitthvað eitt. Popúlismi er orðræða sem snýst um að ala á slíkri aðgreiningu og aðskilnaði í samfélaginu. Hv. þingmaður hefur mikla trú á mér, að ég hafi svar við því sem ég geti fært fram á tveimur mínútum. (Forseti hringir.) En ég held satt að segja að vantraustið, sem hv. þingmaður vísar í í ræðu sinni, sé angi af þessari orðræðu.