149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

tækifæri garðyrkjunnar.

[17:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu um tækifæri íslenskrar garðyrkju. Tækifærin felast í aukinni markaðshlutdeild á innanlandsmarkaði, hún er of lítil. Sama hvernig við veltum hlutunum er enginn vafi á því að kolefnisfótspor og önnur umhverfisáhrif íslensks grænmetis og annarra afurða garðyrkjunnar eru miklu minni en þess innflutta. Auk þess sem garðyrkjan framleiðir gæðavörur.

Það er mikilvægt að stjórnvöld skapi greininni eðlilegt starfsumhverfi til að keppa á markaðnum. Skapa þarf hvata til nýsköpunar í framleiðsluaðferðum, framleiðslutegundum til áframhaldandi þróunar umhverfisvænna lausna, hvort sem er varðandi orkunýtingu eða aðra framleiðsluþætti. Í því samhengi má ekki gleyma flutningi, pökkun, merkingu og vinnu gegn matarsóun og auðvitað er menntunin mikilvæg.

Ég vil jafna dreifingarkostnað raforku strax þannig að í landinu verði eitt dreifikerfi og eitt verð. Það er grunnskrefið, svo að öll orkufrek atvinnustarfsemi í dreifbýli búi við stöðugleika og fyrirsjáanleika í orkukostnaði. Reynslan sýnir að allt annað er ómarkvisst. Þar fyrir utan gæti í stærra samhengi orkunýtingar innan lands, fæðuöryggis og umhverfisþátta, verið skynsamlegt að greiða verð á raforku niður til garðyrkjunnar ásamt því að styðja á einhvern hátt við alla matvöruframleiðslu garðyrkjubænda.

Gæðavaran kemst ekki alltaf fersk á markað. Hver getur bætt úr því? Eru það framleiðendur, dreifingaraðilar eða flutningsfyrirtæki? Staðreyndin er að eftir baráttu við að fá gæðagrænmeti hóf metnaðarfullur veitingamaður á Austurlandi að flytja grænmeti beint inn frá Danmörku með flutningsfyrirtækinu Norrænu og hefur síðan ekki haft undan eftirspurn áskrifenda að grænmeti á Austurlandi. Er þessi vikulegi innflutningur nú kominn í tvö tonn. Ef við framleiðum úrvalsvöru hér á landi verðum við líka að geta dreift henni sem úrvalsvöru um allt land.