149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er þá þannig að þau skref sem nú er verið að taka eru frekari markaðsvæðing íslenskrar orku, væntanlega. Verið er að taka þau skref sem ýmsir fyrrverandi þingmenn hafa varað við, m.a. Ögmundur Jónasson, að við eigum ekki að markaðsvæða orkuna. Í 7. gr. EES-samningsins er talað um að tryggja beri einsleita túlkun og framkvæmd þeirra reglna sem innleiddar eru.

Má þá ekki skilja það þannig að þegar við erum búin að innleiða þær gerðir sem hér eru sé ekkert hægt að snúa við og breyta þeim eftir á? Þá beri okkur einfaldlega að framfylgja þeim og tryggja að framkvæmd þeirra sé rétt, túlkun þeirra sé einsleit og í samræmi við túlkun á evrópska markaðnum? Og er það rétt hjá mér, hv. þingmaður, að við séum að taka skref í að innleiða hér ákveðnar breytingar, t.d. Orkustofnun, sem eru í takt við þær kröfur sem gerðar eru frá ACER?