149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:56]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir góða ræðu þar sem stungið er á kýlum. Hér kemur hv. þingmaður inn á afar merkilega punkta, þ.e. hvað er að gerast í þeim ríkjum í kringum okkur sem þegar hafa innleitt orkupakka þrjú eða gefið vilyrði um að hann verði innleiddur að fullu. Þar sjáum við að fjárfesting einkaaðila í kerfum sem áður voru í almannaeigu og rekin af almenningi eða ríki til hagsbóta fyrir allan almenning, er raunin í dag. Af hverju fjárfesta einkaaðilar í slíkum mannvirkjum? Varla er það til að tapa á fjárfestingunni eða eiga ekki von um arðsemi, heldur akkúrat öfugt. Fjárfestar fjárfesta til að fá arð. Þeir eru í því sem kallað er upp á enska tungu „in the business of making money“.

Þá erum við komin að því atriði sem við höfum verið að reyna að komast að hér í nokkurn tíma. Hvað er það sem veldur? Hver er hvatinn að því að við innleiðum nú, ef þessi þingsályktunartillaga nær fram að ganga, inn í íslenskan rétt orkupakka þrjú á Íslandi sem ekki er tengt við innri markað Evrópusambandsins? Mér þætti gaman að fá hugleiðingar þingmanns um það.