149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er afskaplega áhugaverð spurning. Ég held að hún kalli á dálítinn inngang frá mér. Mér þótti einmitt mjög áhugavert að lesa þetta álit núverandi forseta, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, og get tekið undir flest ef ekki allt í því, enda áttu orkumál ekki að vera hluti EES-samningsins eins og sjálfur faðir EES-samningsins, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur bent á. Að vísu er minnst á orkumál í fylgiskjölum með samningnum. Mig minnir að það sé í 141. gr. fylgiskjala samningsins, en það var alveg ljóst, eins og Jón Baldvin og miklu fleiri hafa bent á, að ekki var gert ráð fyrir því að þessi samningur tæki til orkumála. Á því og reyndar öðru virðist Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi hv. þingmaður, hafa byggt mat sitt. Við hljótum að bíða spennt eftir að heyra ræðu frá núverandi forseta, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, um þennan þriðja orkupakka. Og hugsanlega verður að finna einhver svör í þeirri ræðu við þeirri spurningu sem hv. þingmaður beinir til mín.

En í millitíðinni, á meðan við bíðum þeirrar tímamótaræðu sem hún hlýtur að verða, held ég að það liggi beinast við að ætla sem svo að þetta sé enn ein afleiðing af þessu sérkennilega stjórnarsamstarfi flokka frá hægri til vinstri, sem snerist í raun aldrei um neitt annað en að skipta á milli sín ráðherrastólum, snerist aldrei um einhverja framtíðarsýn eða stefnu, heldur um það hvaða ráðherrastóla hvaða flokkur fengi og fengju þeir sína stóla gætu þeir, flokkarnir, liðsmenn þeirra hér á Alþingi, og að þeirra mati þá flokksmenn líka, vel við unað, algerlega óháð því hvort þessi ríkisstjórn ætlaði að fylgja einhverri stefnu eða boða einhverja framtíðarsýn.