149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

almannatryggingar.

[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg sjálfsagt að ræða almannatryggingakerfið þó að það í sjálfu sér heyri ekki í heild sinni undir fjármálaráðherrann. En hér er hv. þingmaður að fara inn á afskaplega flókið samspil margvíslegra tekjustrauma eða tekna sem geta verið af ýmsum uppruna við stöðu örorkulífeyrisþega. Ég verð að segja að ég held að það sé útilokað að svara í neinum smáatriðum því hvernig þetta flókna samspil kemur út í einstaka dæmum og ég er sannarlega ekki í aðstöðu til að svara því hér og nú miðað við þá löngu upptalningu á forsendum sem hv. þingmaður var með.

Ég hef hins vegar oft og tíðum farið inn á tr.is. Það getur maður gert í tölvunni eða símanum og slegið inn forsendur um aldur viðkomandi örorkulífeyrisþega, félagslega stöðu. Við getum sem dæmi tekið einstakling sem er hefur þrjú börn á framfæri, fær meðlagsgreiðslur, hefur orðið öryrki snemma á lífsleiðinni, segjum t.d. 25 ára, býr einn með þremur börnum, hefur engar aðrar tekjur af nokkru tagi — engar — ekki fjármagnstekjur, engar lífeyristekjur, engar atvinnutekjur, engar tekjur. Hvað segir reiknivélin okkur að sá örorkulífeyrisþegi hafi í stuðning frá almannatryggingum eftir skatt? Svarið við því er að ráðstöfunartekjurnar eftir skatt eru rétt um 461.000 kr. Það er stuðningurinn sem kerfið okkar sýnir þeim sem eru í þeirri viðkvæmu stöðu.

Ef menn vilja fara út í einstök dæmi er mjög auðvelt að tefla fram dæmum af ýmsu tagi, en það verður að skoða forsendurnar hjá hverjum og einum. Býr fólk eitt? Er fólk með börn á framfæri? Hvers konar tekjustrauma er um að ræða? Það sem ég sé sem fjármálaráðherra er (Forseti hringir.) það að við höfum bætt í kerfið frá því að ég fór í ráðuneytið u.þ.b. (Forseti hringir.) 40 milljörðum.