149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Prýðisspurning sem ég þakka fyrir. Ég held að það sem hefur fært þá gömlu fjandvini, ef ég má orða það þannig, eða gömlu andstæðinga saman er sú sameiginlega reynsla sem þeir búa yfir af fyrri innleiðingum, að þeir hafi séð hvað fór úrskeiðis við fyrri innleiðingar — nú heyri ég ekki í sjálfum mér fyrir skvaldri í hliðarsal. Þessir ágætu menn hafa lært af því og eru þess vegna að koma fram hoknir af reynslu og eru að reyna að sýna nýju kynslóðinni sem hefur haslað sér völl í þessum flokkum fram á það hvað gerist ef ekki er vandað til innleiðingar eins og þessarar. En annaðhvort er þessi unga kynslóð eða önnur kynslóð sem er nú uppi í þessum flokkum svona hofmóðug að hún kærir sig ekki um ráð. (Forseti hringir.) En það er til íslenskur málsháttur sem segir: Oft er það gott sem gamlir kveða. Ég held að það hefði verið ráð fyrir (Forseti hringir.) þessa flokka og talsmenn þeirra (Forseti hringir.) að hlusta á þá höfðingja.